Samkeppniseftirlitið gerði engar athugasemdir við samruna Sýnar hf. og Endor ehf. þar sem fyrirtækin tvö starfa að mjög litlu leyti á sömu eða tengdum mörkuðum. Engar vísbendingar væru uppi um að samkeppni gæti raskast vegna samrunans. Þetta kemur fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins .

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, sagði frá þá fyrirhuguðum kaupum í viðtali við Viðskiptablaðið sem birtist í byrjun júlí. „Með kaupunum teljum við að við getum sótt frekar inn á þennan markað alþjóðlega, að færa rekstur á ofurtölvum og gagnaverum til Íslands. Við sjáum líka fram á að geta dýpkað þjónustuna við þau fyrirtæki sem eru í viðskiptum við okkur nú þegar. Við verðum þá komin með teymi sem er sérhæft upplýsingatæknirekstri og meðhöndlun síaukins gagnamagns,“ sagði hann af því tilefni .

Í ákvörðuninni kemur fram að samanlögð velta fyrirtækjanna tveggja á markaði fyrir Microsoft lausnir hér á landi „sé undir [0-5]%“ en velta á markaðnum sé í kringum 10 milljarðar á ársgrundvelli. Í ákvörðuninni kemur fram að Sýn hafi uppi áform um uppbyggingu gagnavera í gegnum hlutdeildarfélag sitt RKF. Endor selji á móti aðgang að gagnaverum, kerfissölum og tengda þjónustu.

Samrunaaðilar töldu samrunann hafa engin áhrif á samkeppni enda markaðshlutdeild þeirra lítil. Hagsmunaaðilum á markaði var gefinn kostur á að kom að athugasemdum en engar slíkar bárust.