Bréf Sýnar lækkuðu um 6,98% í viðskiptum dagsins, sem námu tæpum 50 milljónum, en tilkynnt var í gærkvöldi að Stefán Sigurðsson, forstjóri félagsins, myndi láta af störfum næsta sumar. Auk þess olli uppgjör félagsins talsverðum vonbrigðum. Heildarviðskipti á aðalmarkaði námu 2,4 milljörðum og úrvalsvísitalan hækkaði um 1,26%.

Að bréfum Sýnar frátöldum lækkuðu þrjú önnur félög, öll óverulega, en flest önnur félög hækkuðu í viðskiptum dagsins.

Icelandair tók 7,52% kipp í 347 milljón króna viðskiptum, sem var langtum mesta hækkun og næst mesta velta dagsins, en eins og svo oft áður tróndi Marel á toppi veltulistans með rúman milljarð króna – hátt í helming allrar veltu dagsins – sem skiluðu bréfum félagsins 1,44% hækkun.

Næstmest hækkun var á bréfum HB Granda, 2,4% í 59 milljóna króna viðskiptum, en félagið birti ársreikning fyrir árið 2018 í gær. Þar næst komu bréf VÍS með 2,07% hækkun, en tryggingafélagið birti einnig ársreikning í gær .