Það eru líklega fáir Íslendingar sem hafa jafn mikla reynslu af eignastýringu og verðbréfamörkuðum eins og Sigurður B. Stefánsson. Hann hefur starfað á verðbréfamarkaði frá árdögum hans á Íslandi á níunda áratugnum, fyrst hjá Kaupþingi en hann var einn af stofnendum fyrirtækisins en lengst af starfaði Sigurður sem framkvæmdastjóri VÍB, Verðbréfamarkaðar Íslandsbanka og síðar Eignastýringar Íslandsbanka. Í dag starfar hann fyrir sitt eigið fyrirtæki,  Rose  Atlantic,  og sinnir rannsóknavinnu auk þess að eiga sæti í stjórn Íslandssjóða hf. Sigurður er menntaður hagfræðingur með B.S. Honours-gráðu í byggingaverkfræði frá Edinborgarháskóla, mastersgráðu í stjórnunarfræðum og í stærðfræðilegri hagfræði frá London School of Economis og doktorsgráðu í hagfræði frá háskólanum í Essex.

„Ég hóf störf sem hagfræðingur hjá Þjóðhagsstofnun árið 1973 og var þar til ársins 1983 þegar ég hóf störf hjá Kaupþingi,“ segir Sigurður spurður um hvernig hans ferill á fjármálamarkaði hafi byrjað. „Ég var hjá Þjóðhagsstofnun á þeim tíma þegar verið var að lögbinda verðtrygginguna og þetta var því heilmikil  reiknivinna  þannig að maður tegndist  þar strax fjármálahliðinni á hagkerfinu. Ég var svo einn af þeim sem komu að stofnun Kaupþings árið 1982 og fór til starfa þar ári seinna. Árið 1985 stofnsettum við Hlutabréfamarkaðinn hf. sem var fyrsta félagið sem miðlaði hlutabréfum fyrir eigin reikning og myndaði þar með verð á markaðnum. Þetta var mjög merkilegt brautryðjendastarf. Verslað var með hlutabréf fjögurra félaga í upphafi, Iðnaðarbankans, Verslunarbankans, Eimskips, og Flugleiða og svo bættist Hampiðjan fljótlega við. Hlutabréfasjóðurinn hf. var stofnsettur árið 1986 og varð fyrsti sjóðurinn sem fjárfesti í hlutabréfum íslenskra fyrirtækja. Baldur Guðlaugsson var frumkvöðullinn í stofnun þessara félaga en Þorsteinn Haraldsson var framkvæmdastjóri og sá um rekstur Hlutabréfamarkaðsins hf.

Níundi áratugurinn var samt sem áður áratugur skuldabréfanna þar sem verðtryggingin var þarna komin til sögunnar. Vextir á bréfunum voru að vísu svakalegir. Sem dæmi voru vextir á verðtryggðum ríkisskuldabréfum 8,5% árið 1986. Verðbréfaþing Íslands, forveri Kauphallarinnar, er stofnað 1985 að frumkvæði dr. Jóhannesar Nordal seðlabankastjóra en þar voru í fyrstu aðeins viðskipti með skráð spariskírteini. Það var ekki fyrr en ákvæði skattalaga voru skýrð árið 1992, þar sem heimilt varð að telja hlutabréf fram á nafnvirði, að viðskipti með hlutabréf hófust í gegnum Verðbréfaþingið.“

Tvöfaldaðist á hverju ári

„Ég var hjá Kaupþingi fram til haustsins 1986 þegar Iðnaðarbankinn var að setja upp verðbréfamarkað sem hét þá VIB og ég réðst þangað sem framkvæmdastjóri. Við samruna fjórbankanna árið 1990 þegar Íslandsbanki varð til bættist svo komman ofan á og VÍB varð til.“

Þú ert framkvæmdastjóri hjá VÍB í nærri 20 ár. Það hljóta að hafa orðið miklar breytingar á þessum árum?

„Það breyttist ansi margt. Árið 1986 byrjuðum við Vilborg Lofts, nú rekstrarstjóri hjá Heilbrigðisvísindasviði Háskólans, reksturinn ásamt tveimur starfsmönnum og þetta var eiginlega ekki neitt neitt. Viðskiptin voru á byrjunarreit, það voru viðskipti með ríkisskuldabréf og síðan var svokallaði grái markaðurinn með fasteignatryggð skuldabréf þar sem vextir gátu verið 14% umfram verðbólgu. Ekki þurfti því að kvarta undan ávöxtun! Viðskipti með hlutabréf voru að mestu hjá Hlutabréfamarkaðnum hf. og Hlutabréfasjóðnum hf. sem færðist í rekstur til VÍB eftir árið 1991.

Hlutabréfamarkaðurinn óx hratt úr grasi á tíunda áratugnum og ekki er að efa að skattafsláttur sem einstaklingum var heimilaður vegna hlutabréfakaupa ýtti undir. Eftir breytinguna sem varð til þess að hlutafélög fóru að skrá bréf sín á Verðbréfaþingið efldust viðskiptin. Tíundi áratugurinn var hagstæður og gríðarlegur vöxtur í öllu. Rekstur VÍB tvöfaldaðist á hverju einasta ári, ár eftir ár, alveg fram til ársins 2000 þegar  dotcom-lækkunin brast á. Þrátt fyrir að hún næði formlega ekki hingað til lands þá var samt sem áður samdráttarskeið í efnahagsmálum árin 2001 og 2002. Þetta var dálítið erfiður tími á hlutabréfamarkaði því það gerðist eiginlega nákvæmlega það sama og árin 2016 til 2018. Það stíga fram seljendur  til að selja en enginn er til að kaupa. Á árunum 2001 til 2002 þornuðu viðskiptin alveg upp því það kaupendur fundust hvergi. Lífeyrissjóðir voru ekki byrjaðir að kaupa hlutabréf að einhverju marki þá og þetta var dálítið erfiður tími. Svo glæddist efnahagslífið og byrjaði að taka við sér 2003 og einkavæðing bankanna hófst. Það þarf ekki að fara fleiri orðum um árin 2003 til 2008. Þetta var blómaskeið bankanna og hlutabréfaviðskipti voru alveg margföld á við það sem þau hafa verið síðan.“

Sýnin á eignastýringu breyttist

Eftir að hafa gegnt starfi framkvæmdastjóra VÍB  í tæp tuttugu ár lét Sigurður af störfum haustið 2005. „Ég held að það sé ekki heiðarlegt að segja annað en að á tuttugu árum er maður líklega búinn að skila öllu sem maður getur en við það bættist að viðhorf mín til eignarstýringar höfðu breyst. Ég hafði hreinlega lært meira og ég vildi stefna inn á nýjar brautir. Ég taldi þó ekki vera tilefni til þess að breyta stefnu fyrirtækisins alls, bæði starfsmannanna vegna en ekki síður vegna viðskiptavinanna. Þannig að niðurstaðan varð sú að ég samdi við þáverandi bankastjóra, Bjarna Ármannsson, um að ég stigi til hliðar en fengi tækifæri til þess að stofna vogunarsjóð þar sem byðist að fara inn á þær brautir sem ég hafði í huga.

Þú talar um að sýn þín á eignarstýringu hafði breyst, hvað var það sem breyttist?

„Tíundi áratugur síðustu aldar var það skeið þegar verðbréfamarkaðurinn var að vaxa úr grasi og hlutabréfin líka. Fyrsti áratugur þessarar aldar var með allt öðrum hætti. Hann byrjaði á dotcomsprengjunni og lækkuninni sem fylgdi í kjölfarið, meira en 50% lækkun hlutabréfa á alþjóðlegum markaði. Á þeim tíma var VÍB, blessunarlega getur maður sagt núna, mjög lítið komið í viðskipti á alþjóðlegum markaði þrátt fyrir heimild alveg frá 1994. Við fórum rosalega varlega, ekki síst vegna þess að okkur skorti þekkingu. Það var því ekki mikið sem var undir þegar þessi lækkun brast á. Hún byrjaði í mars árið 2000 og þá vissi enginn, að minnsta kosti ekki við, hvað væri fram undan sem var 36 mánaða lækkun um meira en 50%. Hún gekk í hrinum þessi lækkun. Lækkunarleggurinn 2000 til 2003 var tvöfalt lengri en sá sem kom í kringum hrunið, brast á haustið 2007 og náði til mars 2009.

Ágústmánuður 2002 mun aldrei líða mér úr minni. Hlutabréf á alþjóðlegum markaði voru í frjálsu falli og við kunnum engin ráð. Við höfðum aldrei lent í þessu áður og vissum ekkert hvað við áttum að gera. Þegar maður lítur á þetta eftir á þá kemur bókin Hlutabréf og eignastýring út á vegum Íslandsbanka í október árið 2003. Þannig að við vorum alveg hreint á fullu við að afla okkur kunnáttu og í þeirri bók var búið að safna saman allri okkar þekkingu til þess tíma. Ef maður flettir í gegnum hana þá áttar maður sig á þeirri viðhorfsbreytingu sem var að verða hjá mér sjálfum. Með öðrum orðum þá varð regla númer eitt, svo maður vísi til Warrens Buffett, að tapa ekki peningum. Sem þýðir að maður verður að hafa aðferðafræði sem gerir þér kleift að tapa ekki peningum. Í nýklassísku fjármálafræðinni er þetta viðhorf alls ekki fyrir hendi og það sem er enn þá verra er að því er algerlega útskúfað. Grunnforsendan er að breytingar markaðsverðs fari eftir slembirölti (e. random walk) og því er enginn möguleiki að segja til um hvað verðið gerir á morgun, hvað sem það gerði í gær eða fyrradag.

Ég fylgi alfarið þessari meginreglu Warrens Buffett. Það er þægilegt að geta vísað til hans af því að hann er einhver kunnasti fjárfestir veraldar en William O‘Neill hjá Investor‘s Business Daily er með nákvæmlega sama prinsipp. Regla númer eitt er einfaldlega að tapa ekki peningum. Til að fylgja þeirri reglu þarf aðferðafærði. Í rannsóknavinnu okkar Svandísar R. Ríkarðsdóttur sem meðal annars kemur fram í bókinni Lesið í Markaðinn sést hve mikilvægt er að skilja mismuninn á milli nýklassísku fjármálafræðinnar frá  Chicago  á árunum 1950 til 1970 og klassíska skólans sem verður til á Wall Street með Dow Theory um aldamótin 1900. Í klassíska skólanum er vissulega búist við því að hlutabréf geti bæði hækkað og lækkað. Þú getur ekki byggt upp eignir þegar verð á hlutabréfum er að lækka. Með einhverjum hætti þarf að skilgreina lækkun, þ.e. hvenær kemur að lækkunarfasa og ýmsar leiðir eru til þess. Þú verður að koma eignum þínum af markaðnum áður en að lækkun kemur. Þetta er algjörlega mín lífsskoðun. Það voru þessi viðhorf mín til eignastýringar sem voru að breytast og ég kunni bara ekki nóg árið 2000. Það var ekki fyrr en á árunum 2001-2003 sem við vorum að læra þessa aðferðafræði í eignastýringu. Ég held við höfum ekki lært eins mikið af nokkrum einum manni öðrum en William O’Neill hjá  Investor‘s Business Daily. Það var þar sem við drukkum í okkur þennan boðskap, sem sagt í klassíska skóla eignastýringar.“

Nánar er rætt við Sigurð í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .