Starfsgreinasamband Íslands, iðnaðarmannafélögin og Landssamband íslenskra verslunarmann (LÍV) a eiga nánast daglega í viðræðum við Samtök atvinnulífsins vegna nýs kjarasamnings. Ólíkt Eflingu, VR , Verkalýðsfélagi Akraness ( VLFA ) og Verkalýðsfélagi Grindavíkur, hafa þessi félög ekki vísað deilunni til ríkissáttasemjara.

Guðbrandur Einarsson er formaður Landssambands íslenskra verslunarmanna. Spurður hvort það sé erfitt fyrir þessi félög að semja á meðan VR , Efling og VFLA séu með sín mál á borði ríkissáttasemjara svarar hann: „Hvert félag getur samið og ekkert sem stoppar það. Það að vera fyrstur til að semja getur auðvitað alltaf skapað einhverja vonsku annars staðar en við getum alltaf verið með fyrirvara í okkar samningum. Við getum ekki beðið eftir því að hin þrjú félögin semji. Það hvílir skylda á okkur að landa samningi og við reynum til þrautar.“

Um leið og mál er komið til sáttasemjara, eins og til dæmis staðan er nú með VR , Eflingu og VLFA , þá getur félag lýst yfir árangurslausum viðræðum og óskað eftir verkfallsheimild.

Spurður hvort hann telji að viðræður þessara þriggja félaga muni þróast í þá átt svarar Guðbrandur: „Mér sýnist geta stefnt í það. Ég byggi þá skoðun mína á orðræðunni og yfirlýsingum um að kröfurnar sem lagðar hafa verið fram séu ófrávíkjanlegar. Ég get ekki litið á þær yfirlýsingar öðruvísi en svo að menn ætli að halda öllu því til streitu sem í kröfugerðunum stendur. Reyndin er nú samt sú að í samningaviðræðum þurfa báðir aðilar yfirleitt að gefa eftir. Þannig hef ég litið á það.“

Gagnrýnir ríkisvaldið

Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi formaður SA, sagði í viðtali í tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út í síðasta mánuði að valdabarátta innan verkalýðshreyfingarinnar hefði litað alla umræðu um kjarasamninga undanfarið. Að innan verkalýðshreyfingarinnar hefði fólk „verið að olnboga sig áfram og þess vegna verið með miklar yfirlýsingar“.

„Ég veit ekki hvað ég skal segja um þetta,“ segir Guðbrandur. „Vissulega hefur orðræðan verið harðari núna heldur en hún hefur verið í mörg ár. Við skulum samt ekki gleyma því að orðræðan í gegnum tíðina hefur oft verið ansi hörð. Það sem hefur búið til þetta umhverfi eru aðgerðir ráðamanna. Þrátt fyrir að oft hafi verið gerðir góðir kjarasamningar, eins og árið 2015, þá hefur kaupmáttaraukningin oft verið tekin í burtu með breytingum á borði ríkisstjórnar. Hér er ég til dæmis að vísa í skattabreytingar sem gerðar hafa verið sem og breytingar á bótakerfinu, sem hafa bitnað á þeim sem minnst hafa á milli handanna. Þetta skapar óánægju og leiðir af sér þessa hörðu orðræðu. Þessi aukna harka hefur líka leitt til þess að samskiptin við talsmenn vinnuveitenda og ríkisvaldið eru með öðrum hætti en verið hefur.

Þó að fundað hafi verið með fulltrúum ríkisstjórnarinnar og vinnuveitenda í rúmt ár þá hafa þeir fundir ekki leitt til neinnar niðurstöðu enn sem komið er.“

Eitthvað vitlaust í jöfnunni

Íslenska samningsmódelið hefur stundum verið gagnrýnt. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur meðal annars gert það og þá á þeim forsendum að módelið gangi ekki út frá því að það sé forsenda að góðri niðurstöðu að menn hafi fyrst komið sér saman um hvaða svigrúm sé til launahækkana.

„Ég er mörgu leyti sammála gagnrýninni á módelið okkar,“ segir Guðbrandur. „Ég er einn af þeim sem sátu í miðstjórn Alþýðusambandsins þegar tekin var ákvörðun um að reyna að búa til vinnumarkaðsmódel að norrænni fyrirmynd – SALEK . Ástæðurnar fyrir því voru margar. Þegar við berum okkur saman við Norðurlöndin þá erum við meistarar í launahækkunum en það sama á ekki við um kaupmáttaraukninguna – þar stöndum við langt að baki Norðurlöndunum. Af hverju eykst kaupmáttur á Norðurlöndunum meira en hér þrátt fyrir að þar séu minni launahækkanir? Það er eitthvað vitlaust í jöfnunni hjá okkur og við þurfum að skoða það til framtíðar.

Ástæðan fyrir því að SALEK dó drottni sínum var meðal annars sú að ekki náðist samkomulag við ríkisvaldið um það hvernig standa ætti að þessum málum. Það er ekki bara hægt að einblína á launaliðinn og efnahagsmálin þegar búa á til nýtt módel. Þetta er miklu flóknara en svo. Þegar umbylta á samningsmódelinu þá þarf að skoða ýmislegt sem snýr að ríkisvaldinu eins og til dæmis velferðarkerfið allt saman.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .