Sumarhús hafa ekki hækkað jafnmikið í verði og íbúðarhúsnæði. Viðar Böðvarsson, framkvæmdastjóri og löggiltur fasteignasali hjá Fold fasteignasölu, segir erfitt að spá í ástæðurnar fyrir því að verðið á sumarhúsum hefur ekki hækkað jafn mikið og verð á íbúðahúsnæði.

„Sumarhúsamarkaðurinn hefur ekki hækkað jafn mikið og íbúðamarkaðurinn og það má líta svo á að hann eigi ennþá talsvert inni. Það var mikið byggt af sumarhúsum á þessum síðustu árum fyrir hrun og að auki er mikið af fólki að eldast sem byggði sumarhús fyrir nokkrum áratugum síðan. Það hefur því verið ákveðið framboð til staðar. Mín upplifun er sú að á síðustu tveimur árum hefur verið að koma meiri virkni inn á þennan markað. En það er talsvert mikið framboð sem svarar þeirri eftirspurn sem er. Svo hefur auðvitað staðsetning og ástand sumarhúsanna mikið að segja.

Íslendingar voru nokkuð lengi að koma sér upp úr hruninu, en bústaðir seldust þó ágætlega þau ár sem íbúðir seldust illa, þá sérstaklega 2008 og 2009. Þá virðist vera að það hafi verið margir sem treystu ekki bönkunum og komu því peningunum sem þeir áttu fyrir í bústöðum. Sumarbústaðir seldust því nokkuð vel þessi fyrstu ár eftir hrun, meðan íbúðamarkaðurinn var mjög daufur. Svo dofnaði nokkuð yfir sölunni á bústöðum og þeir koma ekki til baka á sama hátt og íbúðirnar. En ef það er í boði gott sumarhús á góðum stað, þá er nú yfirleitt kaupandi að því skammt undan ef það er rétt verðlagt. Önnur ástæða sem kann að hafa áhrif á hægari vexti sumarhúsamarkaðarins, er að það er orðið mikið framboð á sumarhúsum til leigu. Í dag getur fólk farið á netið og tekið bústað að leigu, að vísu gegn dýru verði oft á tíðum. En þessi möguleiki er til staðar, sem var mjög erfiður hér áður fyrr. Það er þó einnig eftirspurn eftir bústöðum frá aðilum sem kaupa þá til að leigja þá svo út, þannig að þetta virkar kannski svolítið í báðar áttir."

Ágæt sala síðasta sumar

„Ég var nokkuð sáttur með bústaðasöluna síðasta sumar, þá sérstaklega magnið sem seldist miðað við árin á undan. Verðið fer einnig hækkandi, þannig að þetta er því allt á leið í rétta átt. Ég tel ýmis tækifæri vera á þessum markaði, þar sem verð á sumarbústöðum er hagstætt eins og staðan er í dag," segir Viðar.

Misjafnt hvernig bústaði fólk sækir í

Viðar segir að það sé nokkuð misjafnt hvernig sumarhús fólk sé að leita að. „Það má segja að þetta sé nokkuð tvískipt. Það er hópur sem setur sér ákveðin mörk og vill ekki bústað sem er stór og kostnaðarsamur í rekstri og vill bara lítinn og þægilegan bústað. Svo er annar hópur sem vill fá veglegri hús og vill hafa svefnpláss fyrir stórfjölskylduna. Þeir eru tilbúnir til að borga vel fyrir veglegri bústaði sem eru vel úr garði gerðir og nýlegir," segir Viðar.

Sala á sumarhúsalóðum að taka við sér

Sala á sumarhúsalóðum hefur að sögn Viðars verið að taka við sér upp á síðkastið, eftir mögur ár þar á undan. „Lengi vel seldust sumarhúsalóðir ekki, en þær eru byrjaðar að seljast bæði núna í ár sem og í fyrra. Það er kominn ákveðinn markaður fyrir þær en kannski af því að sumarhúsaverð er hagstætt, þá er hagstæðara að kaupa tilbúinn bústað heldur en lóð og fara að byggja bústað. Það eru kannski helst iðnaðarmenn sem sjá hag í því að kaupa lóð og byggja bústað sjálfir. Ég hef þó ekki orðið var við það að verið sé að kaupa lóðir til að byggja þar bústað til endursölu. Það augnablik er ekki enn komið en mér þykir líklegt að það muni koma," segir Viðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .