Samskip eiga sér áratuga sögu og hefur félagið vaxið gríðarlega hér á landi sem erlendis frá stofnun. Fyrirtækið hefur sjöfaldast að umfangi frá því fyrir síðustu aldamót og nemur velta samstæðunnar um 100 milljörðum króna. Hjá Samskipum starfa um 1.400 manns á 55 starfsstöðvum í 24 löndum um allan heim og þar af starfa um 500 manns á átta stöðum víðs vegar um Ísland.

Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa hf., segir að rekstur samstæðunnar standi í meginatriðum á tveimur grunnstoðum: annars vegar rekstri eigin flutningakerfa í Evrópu og Norður-Atlantshafi undir merki Samskipa og hins vegar flutningsmiðlun á hitastýrðum vörum um allan heim undir merki Samskip Logistics. Pálmar telur mikil vaxtatækifæri vera til staðar á báðum vígstöðvum.

Hvað liggur að baki mikilli uppbyggingu Samskipa?

„Í grunninn hófum við starfsemi okkar á Íslandi og rætur okkar eru hér. Öll uppbygging hefur byggst á þekkingu og reynslu af því að þjóna þessum kröfuharða íslenska markaði, oft við erfiðar aðstæður. Við höfum náð að vaxa farsællega með íslensku hagkerfi og við­ skiptavinum okkar heima og höfum smám saman fært út kvíarnar. Í dag felast um 20 prósent af umfangi félagsins í starfsemi tengdri Íslandi og hin 80 prósentin eru starfsemi sem tengist ekki Íslandi beint en íslenskir viðskiptavinir okkar njóta hins vegar góðs af. Við tengjum flutningakerfi okkar til og frá Íslandi inn á flutninganet okkar í Evrópu og um allan heim þannig að við erum einnig að bjóða heildstæða þjónustu fyrir íslenska markaðinn. Í rekstri eigin flutningakerfa bjóðum við upp á heildarlausnir í gámaflutningum innan Evr­ ópu en í flutningsmiðluninni notfærum við okkur flutningakerfi annarra fyrirtækja í bland við eigin kerfi til að flytja vöru um allan heim. Þar höfum við sérhæft okkur í hitastýrðum flutningum á kæli- og frystivöru, kjöti, grænmeti og slíku. Við höfum stigið inn á þann markað á grundvelli þekkingar og reynslu sem við höfum aflað með því að þjóna meðal annars íslenskum sjávarútvegi um langt skeið. Við höfum verið í mikilli uppbyggingu erlendis frá aldamótum, fjárfest í aukinni þekkingu, kerfum og aðstöðu og við sjáum mikil vaxtatækifæri, jafnt í hitastýrðum flutningum um allan heim, sem og í rekstri eigin flutninganets undir merki Samskipa.“

Risafjárfesting í Noregi Samskip fjárfestu nýlega í norska flutningafyrirtækinu ECL. Hvað lá þar að baki?

„Kaupin eru áfangi í áframhaldandi uppbyggingu félagsins. Norski markaðurinn er um margt mjög áhugaverð­ur fyrir okkur. Þarfir norska markaðarins eru keimlíkar þeim þörfum sem við höfum reynslu og þekkingu af því að þjóna á Íslandi. Á báðum þessum mörkuðum gegna sjávarútvegur og stóriðja mikilvægu hlutverki og í Noregi eru landfræðilegar aðstæður um margt líkar þeim íslensku þar sem byggð er mjög dreifð og atvinnustarfsemi út um allt á minni stöðum. Við sjáum að við getum nýtt þekkingu okkar og reynslu frá Íslandi og yfirfært á norska markaðinn. Um leið þétta kaupin flutninganetið okkar, öllum okkar viðskiptavinum til hagsbóta. Kaupin á ECL voru fjárfesting upp á tvær og hálfa milljón evra og eru ásamt fjárfestingum okkar í Silver Green og í fimm frystiskipum í Noregi, stærsta fjárfesting félagsins frá hruni. Hún styrkir stoðirnar í starfsemi Samskipa.“

Eru Samskip með frekari fjárfestingar­ áform í huga? Hver eru helstu vaxtatækifærin?

„Samskip hafa metnað og áform til þess að vaxa áfram. Í rekstri okkar á eigin flutningakerfum í Evrópu sjáum við að þar erum við að þjóna um margt þroskuðum markaði og óvíst að mikill vöxtur verði þar á næstunni. Vaxtatækifærin okkar í þeim rekstri felast þar af leiðandi fyrst og fremst í stækkun markaðssvæðisins, til dæmis með því að styrkja stöðu okkar í Rússlandi þar sem við höfum verið lengi. Þó að sambandið við Rússa sé stirt um þessar mundir búa Rússar yfir gríðarlegum náttúruauðlindum og hagkerfið þeirra er stórt á flesta mælikvarða. Að sama skapi sjáum við Tyrkland sem mikilvægt markaðssvæði sem tengir saman tvo menningarheima og markaðssvæði, Evrópu og Mið-Austurlönd. Þá er áhugavert að sjá að Kína hefur verið að breytast frá því að vera nær einungis útflutningsríki með ódýrt vinnuafl í að verða meira neyslusamfélag eftir því sem kaupmáttur þar vex. Þar af leiðandi breytist flutningsmynstrið, útflutningurinn minnkar og einkaneyslan eykst og þá færist framleiðslan til annarra ríkja. Við sjáum fyrir okkur að Mið-Austurlönd, Norður-Afríka og Indland eigi eftir að taka við hlutverki Kína í auknum mæli og þá færist til þunginn í vöruflutningum á heimsvísu. Þarna sjáum við vaxtatækifæri á sviði hitastýrðra flutninga og tækifæri til að vaxa með viðskiptavinum félagsins í þeim geira.“

Hafa Samskip fundið mikið fyrir við­ skiptaþvingunum af hálfu Rússlands?

„Við finnum fyrir þeim. Viðskipta­þvinganirnar hafa víða haft áhrif og sem dæmi drógust viðskipti Þýskalands við Rússlands saman um 25 pró­ sent á árunum 2014 til 2015 og auðvitað munar um minna. Á Íslandi hefur sjávarútvegurinn fundið mikið fyrir þessum viðskiptaþvingunum og sala á uppsjávarfiski hefur stöðvast. En við höfum upplifað svona sviptingar áður, svo sem árið 1998 þegar Rússlandsmarkaður hrundi, en þetta jafnaði sig með tímanum. Frá okkar bæjardyrum séð er gott að hafa snertifleti víða um heim og hafa margar stoðir í rekstrinum til að draga úr áhrifum sveiflna af þessum toga á reksturinn.“ Er væntanleg útganga Bretlands úr Evrópusambandinu áhættuþáttur í ykkar rekstri? „Við erum mjög stór í Bretlandi og í flutningum okkar innan Evrópu er Bretland okkar stærsti einstaki markaður ásamt Skandinavíu. Ákvörð­ un Breta um útgöngu úr Evrópusambandinu hafði strax mjög víðtæk áhrif. Fyrirtæki og fjárfestar fóru að halda að­ eins að sér höndunum og menn eru að velta fyrir sér hvað þetta komi til með að þýða til lengri tíma. Við eigum eftir að bíta úr nálinni með það hvaða áhrif þetta hefur á flutningana til skemmri og lengri tíma. Við höfum minni áhyggjur til lengri tíma en það kunna að verða einhver skammtímaáhrif.“

Nánar er rætt við Pálmar Óla í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.