Eigendur Selfridges hafa náð samkomulagi um sölu á stórverslanakeðjunni til tælenska smásölurisans Central Group. Kaupverðið liggur ekki fyrir en inni í kaupunum verður Selfridges fasteignasafnið sem er metið á um 2 milljarða punda, eða um 350 milljarða króna. The Times greinir frá.

Selfridges hefur verið í eigu kanadísku Weston fjölskyldunnar frá árinu 2003. Fjölskyldan setti Selfridges í söluferli fyrr í ár, nokkrum mánuðum eftir andlát Galen Weston, sem var höfuð fjölskyldunnar. Talið er að Weston fjölskyldan, sem er einnig meirihlutaeigandi fataverslunarkeðjunnar Primark, hafi sóst eftir allt að 4 milljörðum punda, eða hátt í 700 milljarða króna, fyrir Selfridges.

Sjá einnig: Vilja 700 milljarða fyrir Selfridges

Selfridges starfrækir 25 stórverslanir víðs vegar um heiminn en flaggskip keðjunnar er á Oxford stræti í Lundúnum. Fyrirtækið á einnig stórverslanir undir merkjum Brown Thomas og Arnotts í Írlandi.

Central Group er fyrirtækjasamsteypa í eigu tælensku Chirathivat fjölskyldunnar. Alls rekur samstæðan tæplega 3.700 verslanir um allan heim, þar á meðal raftækja-, bóka- og stórverslanir.