Áætlað er að hátt í 1.500 milljónir króna verði nýttar af ríkinu til að greiða starfsfólki í sóttkví laun og til að brúa bilið fyrir starfsfólk sem verður sett í hlutastarf hjá fyrirtækjum. Hámark verður sett á greiðslur samkvæmt frumvörpunum og hið síðarnefnda mun tæplega ná til allra sem sæta sóttkví. Þetta kemur fram í tveimur lagafrumvörpum félags- og barnamálaráðherra sem dreift var á þinginu síðla á föstudag.

Annað frumvarpið felur í sér að fyrirtæki munu geta minnkað starfshlutfall starfsfólks um 20-50% og ríkið muni sjá um að brúa bilið upp í full laun án þess að til skerðinga úr atvinnuleysistryggingum komi. Launamaður verður að halda minnst 50% starfshlutfalli svo undanþágan eigi við. Frumvarpið tekur einnig til þeirra sem eru sjálfstætt starfandi en þeim ber að tilkynna Skattinum um verulegan samdrátt í rekstri.

Ríkið brúar þó ekki bilið að fullu en samanlögð laun vinnuveitanda og bótagreiðslur munu ekki geta orðið hærri en 80% af meðaltali heildarlauna launamanns. Miðað er við síðustu þrjá mánuði áður en til greiðslna úr atvinnuleysistryggingum hefst.

Þá er sett hámarksþak á greiðslurnar sem felur í sér að samanlagðar greiðslur geta aldrei orðið hærri en 650 þúsund krónur á mánuði. Lögin munu gilda frá 15. mars til 1. júlí 2020.

Frumvarpið er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að bregðast við fyrirséðum snörpum samdrætti í efnahagslífinu vegna Covid-19 sjúkdómsins. Í greinargerð segir að erfitt sé að leggja mat á áhrif þess á ríkissjóð sökum þeirrar óvissu sem uppi er. Gripið var til áþekkra aðgerða í efnahagsáfallinu 2008 en þá var úrræðið nýtt í tilfelli 8-11% launafólks. Verði hlutfallið sambærilegt núna er áætlað að lögin taki til um þúsund einstaklinga og heildarútgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs verði um 755 milljónir króna.

Hinu frumvarpinu er ætlað að tryggja greiðslur til einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir af veirunni. Þau lög munu gilda fyrir þriggja mánaða tímabil, það er 1. febrúar 2020 til aprílloka.

Frumvarpið tekur bæði til launafólks svo og sjálfstætt starfandi. Samkvæmt frumvarpinu mun atvinnurekandi geta sent ríkinu reikning vegna launa starfsmanns í sóttkví hafi hann sannanlega greitt laun á meðan sóttkví varði. Einnig er heimilt að greiða laun beint til launamanns hafi atvinnurekandi lent í rekstrarörðugleikum.

Líkt og í fyrra tilfellinu er sett þak á greiðslurnar. Hámarksgreiðslur fyrir mánuð munu nema 633 þúsund og hámarksgreiðslur fyrir hvern dag í sóttkví verða rúmlega 21 þúsund krónur.

Hvað sjálfsætt starfandi og einyrkja varðar þá munu lögin fela í sér að þeir eigi rétt á greiðslum sé rekstur opinn og staðin hafi verið skil á tryggingagjaldi og reiknuðu endurgjaldi í þrjá af síðustu fjórum mánuðum áður en til greiðslna kemur. Greiðsla til þeirra mun nema 80% af heildarlaunum en sama þak gildir og í fyrra tilfellinu. Hafi einstaklingur eitthvað út á framkvæmd stjórnvalda að setja er hægt að kæra niðurstöðuna til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Áætlað er að frumvarpið taki til um 75% þeirra sem starfa á vinnumarkaði. Engar forsendur séu til þess að leggja mat á áhrifin.

„Ef miðað er við að heildarfjöldi þeirra sem sættu sóttkví yrði 5.000 einstaklingar er gert ráð fyrir því að fjöldi þeirra sem frumvarpið nær til yrði um 2.500-3.000 einstaklingar að hámarki,“ segir í greinargerðinni .

Áætlað er að aukin útgjöld ríkissjóðs vegna þessa gæti orðið um 600-700 milljónir króna. Þá mun þurfa að bæta við stöðugildum hjá Vinnumálastofnun sem mun fela í sér um 25 milljóna króna kostnaðarauka.

Þingfundur er ekki á dagskrá í dag en fundað verður á Alþingi á morgun. Er viðbúið að mælt verði fyrir frumvörpunum tveimur á þeim fundi. Afgreiðslutími þeirra verður síðan vafalaust skemmri en hefðbundið er.