Rétt tæplega helmingur þeirra sem tóku afstöðu eru andvígir því að Alþingi samþykki svokallaðan þriðja orkupakka, sem er ESB tilskipun um tilhögun orkumála, að því er Fréttablaðið greinir frá upp úr nýrri könnun Zenter.

Sögðust 48,7% þeirra sem tóku afstöðu vera andvíg samþykkt reglnanna, 29,6% sögðust hlynnt samþykktinni en 21,7% sögðust hlutlaus. Eru hlutföllin svipuð og frá könnun Zenter í desembermánuði.

Þegar öll svör eru skoðuð er þó ríflega þriðjungur, eða 36,3% sem segist ekki vita hvort þeir séu hlynntir eða andvígur, en þá eru 30,5% andvíg, 18,5% hlynnt, og 13,6% hlutleis og rúmt prósent sem ekki vildi svara.

Einnig var fólk spurt hvort það hefði kynnt sér pakkann og þá hversu vel eða illa. Tæplega þriðjungur sagðist ekki hafa kynnt sér reglurnar, eða 32,1%, og 26,5% til viðbótar sögðust hafa kynnt sér hann illa, svo samanlagt eru það 58,6%. 22,2% sögðust hafa kynnt sér reglurnar vel og 19,2% hvorki vel né illa.

Af þeim sem sögðust hafa kynnt sér málið vel voru 46% þeirra hlynnt því að pakkinn yrði samþykktur, en helmingur þeirra voru andvígir samþykkt. Einnig er helmingur þeirra sem hvorki hafa kynnt sér málið vel né illa, og 46% þeirra sem hafa kynnt sér málið illa á móti því. Loks eru 45% þeirra sem hafa ekki kynnt sér það yfir höfuð á móti því.

Um var að ræða netkönnun dagana 24. apríl til 2. maí, með 2.500 manna úrtaki, en 1.443 svöruðu sem er 57,7% svarhlutfall.