Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur tafið eðlilega og sjálfsagða viðleitni fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi til að styrkja sig í erfiðri samkeppni á erlendum mörkuðum með „tilefnislausum bréfaskriftum, fyrirspurnum og lagalegum vífilengjum án þess nokkru sinni að þurfa að sýna fram á hvaða hagsmuni eftirlitið sé að verja,“ sagði Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, í ávarpi sem var birt í ársskýrslu félagsins í dag. Fréttablaðið sagði fyrst frá.

SKE hafi haft afskipti af sameiningum fyrirtækja í sjávarútvegi síðastliðin 15 ár þrátt fyrir að lög um stjórn fiskveiða, sem takmarka hámarkseign hvers fyrirtækis á aflaheimildum, gangi mun lengra en samkeppnislög varðandi sameiningu eða samruna fyrirtækja í sjávarútvegi, að sögn Guðmundar.

Hann segir að miklar tafir hafi verið á samþykki eftirlitsins vegna kaupa Brims á sjávarútvegsfyrirtækjunum Kambi og Grábrók „og afleiðing þessara tafa varð tjón fyrir öll félögin og starfsfólk þess“. Jafnframt hafi þessar tafir verið ástæðulausir þar sem SKE hafði skýrslu frá Hagfræðistofnun HÍ frá árinu 2010 um að það væri ekki óeðlileg samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi miðað við hinn alþjóðlega HHI-stuðul sem Samkeppniseftirlitið sjálft bendir á sem helstu aðferð til að meta samþjöppun á markaði.

Brim hafi ekki verið ásakað né grunað um ólöglegt samráð og ekkert hafi komið fram í starfi eða rekstri félagsins sem gefur slíkt til kynna, segir Guðmundur. Jafnframt sé virk samkeppni er á öllum mörkuðum sem Brim og önnur íslensk sjávarútvegsfyrirtæki starfa á samkvæmt alþjóðlegum og viðurkenndum stöðlum og að samþjöppun í greininni er mjög lítil, samkvæmt niðurstöðum Arev verðbréfafyrirtækis hf. Þrátt fyrir það sjái SKE ástæðu til að tefja framgang sjávarútvegsfyrirtækja.

Gagnrýnir frumvarp sjávarútvegsráðherra

Guðmundur snýr sér svo að íþyngjandi kvöðum í frumvarpi Kristján Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra um breytingar á sviði fiskveiðistjórnunar sem liggur fyrir Alþingi. Þar sé að finna ákvæði sem þrengja starfskilyrði íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja umfram það sem annars staðar þekkist.

Í fyrsta lagi séu skilgreiningar á „raunverulegum yfirráðum“ fyrirtækja víkkaðar þannig að takmarkanir á samruna fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi eru meiri en fyrirtækja í öðrum atvinnugreinum hér á landi og að auki eru þær meiri en gilda um sjávarútvegsfyrirtæki annars staðar í Evrópu, þ.á.m. um alþjóðlegu stórfyrirtækin „sem hvert um sig er stærra en allur íslenskur sjávarútvegur“.

„Ekki er hægt að finna í greinargerð með frumvarpi þessu hvaða hagsmuni þessar breytingar eiga að verja. Rökstuðningur fyrir breytingum er veikburða, samráð stjórnvalda við greinina eða samvinna ekki til staðar og athafnir og fyrirhöfn stjórnvalda tilefnis- og ástæðulítil og valda sjávarútvegsfyrirtækjum tjóni og þegar upp er staðið skaða möguleika íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja.“

Vekur undrun að stjórnvöld leggi ítrekað grjót í götu sjávarútvegsfyrirtækja

Guðmundur segir nauðsynlegt að hafa opinbera umræðu um sjávarútveg vera undirstöðu efnahags- og atvinnulífs hér á landi. Auðvelt ætti að vera að sameinast um það markmið að skipulag greinarinnar stuðli fyrst og fremst að sem mestri verðmætasköpun í greininni sem fæst með sölu á afurðum á verðmætum mörkuðum og nýsköpun tækifæra í stoð- og þjónustugreinum.

„Það vekur því undrun að stjórnvöld, ýmist stofnanir eða ráðamenn, leggi ítrekað grjót í götu og torveldi íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum að ná því markmiði. Það er sannfæring mín að með opinni umræðu, gagnsæi, úrvinnslu gagna og miðlun staðreynda muni okkur takast að skapa aðstæður hér á landi sem gera íslenskan sjávarútveg framúrskarandi og auki hlutdeild okkar á erlendum mörkuðum og efli þannig íslenskt atvinnu- og þjóðlíf,“ segir Guðmundur að lokum.