„Össur er vel rekið fyrirtæki í spennandi atvinnugrein. Þeir hafa verið að ná aftur vopnum sínum eftir svolítið erfið ár, síðustu 2-3 ár hafa verið erfið og þeir hafa brugðist við þeim vandamálum og lækkað hjá sér kostnað og lagað reksturinn,“ segir Jóhann Viðar Ívarsson, greinandi hjá IFS.

„Þeir hafa verið að sýna góðan tekjuvöxt og lækkað kostnaðarhlutföll. Eitt af því sem gerir þá spennandi er að þeir eru að takast á við langtímavandamál á borð við öldrun og ofþyngd sem virðist vera að aukast með ári hverju.“

Össur hóf uppkaup á eigin bréfum í kauphöllinni í Kaupmannahöfn fyrir rétt rúmlega viku. Félagið getur keypt rétt rúmlega fimm milljónir hluta, sem nemur 1,1% núverandi hlutafjár þess. Kaupin munu þó ekki kosta fyrirtækið meira en 1,3 milljarða íslenskra króna.

Tilgangur endurkaupanna er að lækka útgefið hlutafé félagsins. Þá mun fjármagnsskipan fyrirtækisins deila út fjármagni til hluthafa í samræmi við arðgreiðslustefnu þess.

Nánar er fjallað um málið í Úr kauphöllinni, fylgirit Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .