Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna greindi frá því í dag að takmark yrði sett á magn nikótíns í tóbaksvörum í Bandaríkjunum. Er markmiðið með aðgerðunum að draga úr tóbaksfíkn og fækka reykingamönnum í landinu. Er þetta í fyrsta sinn í sögunni sem takmark er sett á magn nikótíns í tóbaksvörum í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í frétt BBC .

Samkvæmt stofnuninni deyja um 480.000 Bandaríkjamenn á ári hverju af völdum reykinga. Nemur heilbrigðiskostnaður vegna reykinga um 300 milljörðum dollara á ári hverju.

Gengi hlutabréfa tóbaksfyrirtækja hefur lækkað töluvert eftir að stofnunin greindi frá áætlunum sínum. Gengi bréfa Altira hefur lækkað um tæp 9% og British American Tobacco um tæp 7%. Þá lækkaði gengi bréfa Phillip Morris um 7% í byrjun dags.