Eftir samfelldan samdrátt í sölu nýrra bíla hér á landi í tvö og hálft ár jókst salan í september. „Það hafði verið samdráttur 31 mánuð í röð,“ segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar.

„Samdráttartímabilið var þegar orðið það lengsta á síðustu tuttugu árum áður en Covid skall á,“ segir Egill. Það sem af er ári hefur reksturinn þó gengið betur en forsvarsmenn bílaumboðanna áttu von á þegar kórónuveiran barst til landsins í byrjun ársins. Bílasala dróst verulega saman í mars og apríl. „En í vor og sumar jókst sala bíla, sér í lagi notaðra bíla, töluvert. Árið er það besta í sögunni hjá okkur í sölu notaðra bíla,“ segir Egill.

Egill segir að salan í september og framan af október hafi verið mjög góð. Óvissan um næstu mánuði sé þó töluverð. Fyrirspurnum hafi tekið að fækka  þegar nýjar sóttvarnaaðgerðir voru kynntar á síðustu vikum. „Ég yrði ekki hissa þó þetta yrði strembið yfir hörðustu vetrarmánuðina, frá nóvember og fram í febrúar,“ segir Egill.

© vb.is (vb.is)

Tap hjá fjórum af sex stærstu

Afkoma stærstu bílaumboða landsins á síðasta ári er sú versta frá því að íslenskt hagkerfi hóf að rétta úr kútnum eftir efnahagshrunið ár 2008. Samanlagt voru fjögur af sex stærstu bílaumboðum landsins rekin með tapi.  BL hagnaðist um 41 milljón og Toyota um ríflega 170 milljónir króna en rekstur Toyota er í tveimur félögum, TK Bílum og Toyota á Íslandi. Árin 2015 til 2017 voru bílaumboðunum gjöful. Þau skiluðu samanlagt hátt þriggja milljarða króna hagnaði árið 2015 og nær fjögurra milljarða króna hagnaði bæði árin 2016 og 2017. Síðan þá hefur bílasala dregist saman.

Brimborg var rekið með 671 milljónar tapi á síðasta ári og 361 milljónar króna tapi árið 2018 eftir samfelldan hagnað árin þar á undan. Egill segir skýringuna vera samdrátt í bílasölu og að afkoma bílaleigu félagsins hafi ekki verið sem skyldi. Þá hafi fylgt því kostnaður að færa atvinnubílahluta félagsins í nýtt húsnæði við Hádegismóa. Það sem af er þessu ári sé afkoman þó betri en í fyrra í öllum rekstrinum að bílaleigu undanskilinni. Rekstrarkostnaður Brimborgar hafi verið lækkaður til að bregðast við stöðunni og sé meira en 30% lægri það sem af er ári miðað við sama tímabil í fyrra. Ásamt því var gripið til skipulagsbreytinga í Hádegismóum.

Velta Heklu dróst saman um fjórðung og 24 milljóna króna tap var af rekstrinum. Bílabúð Benna var rekin með 284 milljóna króna tapi í fyrra eftir 115 milljóna hagnað árið 2018. Rekstrartekjurnar lækkuðu úr 3,6 milljörðum króna í 2 milljarða króna sem skýrist að nokkru af því að félaginu var skipt upp á síðasta ári og rekstur systurfélagsins Nesdekkja færður í sérstakt félag.

© vb.is (vb.is)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .