Bandaríska fatakeðjan JC Penney tapaði 48 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur nærri 6 milljörðum króna, á öðrum ársfjórðungi sem er þó um helmingi minna tap en á sama tíma fyrir ári þegar það nam 101 milljón dala.

Var það skárri niðurstaða en greinendur höfðu gert ráð fyrir, eða um 32 sent á hlut, og fyrir utan einskiptiskostnað, 18 sent á hlut, meðan greinendur höfðu spáð 31 senta tapi á hlut. Hins vegar minnkaði sala fyrirtækisins töluvert meira en búist hafði verið við, og drógust tekjurnar saman um 7,4% á milli ára, niður í 2,62 milljarða dala, en þær voru 2,8 milljarðar á sama tíma fyrir ári.

Fyrirtækið segir söluna hafa minnkað meira en vænt var m.a. vegna þess að það væri hætt að selja búsáhöld og húsgögn í verslunum sínum. Til þeirra og fleiri ráðstafana hefur verið gripið af forstjóranum Jill Soltou til að reyna að rétta rekstur fyrirtækisins við, en hann tók við stjórnartaumunum fyrir 10 mánuðum síðan.

9 milljarða vaxtagreiðslur af skuldafjalli sem nemur hálfri billjón króna

Fyrirtækið hefur þegar lokað 15 af þeim 18 verslunum sem fyrirtækið tilkynnti um að það myndi loka á árinu og öllum 9 stöðunum þar sem fyrirtækið seldi jafnframt búsáhöld og heimilistæki eins og áður segir.

Rekstrarhagnaðurinn nam 17 milljónum dala á árinu en vegna um 4 milljarða dala skuldafjalls, eða sem nemur 498 milljörðum íslenskra króna, sem unnið er að því að endurskipuleggja þurfti félagið að greiða 74 milljónir dala, eða samsvarandi 9,2 milljörðum króna, í vexti.

Félagið segir samkvæmt CNBC að það óttist áhrif tolladeilna Bandaríkjanna og Kína síður en helstu keppinautar sínir því það hafi tryggt sér meiri fjölbreytni í birgjum. Þegar markaðir lokuðu á föstudag hafði gengi bréfa félagsins lækkað frá hápunkti ársins þann 14. mars síðastliðinn úr 1,85 dölum á hlut í 0,58 dali á hlut, eða um nærri 69%. Er það töluvert lægra en þá sögulega lægsta gengi bréfa félagsins sem Viðskiptablaðið sagði frá fyrir ári .

Hér má sjá frekari fréttir um stöðu JC Penney: