Össur tapaði 18 milljónum dollara á öðrum ársfjórðungi, andvirði um 2,5 milljarða króna, en félagið hagnaðist um 37 milljónir dollara á sama tímabili í fyrra, um fimm milljarðar króna. Tap á fyrri hluta ársins nemur því um 11 milljónum dollara, 1,5 milljarður króna. Sala dróst saman um 23% í staðbundinni mynt og var innri vöxtur neikvæður um 26%.

Tap félagsins er sagður helst stafa af lægri sölu annars vegar og hins vegar af niðurfærslu og ýmsum gjöldum sökum sölu á dótturfélaginu Gibaud. Stefnt er að klára sölu félagsins seinna á árinu.

Rekstrartap Össur (EBIT) nam 17 milljónum dollara, andvirði um 2,3 milljarða króna. Samanborið við rekstrarhagnað sem nam tæplega 30 milljónum dollara á sama tímabili á fyrra ári, um 4 milljarðar króna.

Heildareignir félagsins hafa vaxið um 8% það sem af er ári og nema nú tæplega 1,2 milljarði dollara, um 161 milljarður króna. Samhliða hefur eiginfjárhlutfall Össur lækkað, úr 52% í ríflega 45%.

Sagt er frá því að lausafjárstaða félagsins sé sterk en hún var um 149 milljónir dollara í lok fjórðungsins, um 20 milljarðar króna. Sjóðsstreymi félagsins nam um 29 milljónum dollara, 22% af sölum félagsins á fjórðungnum.

Haft er eftir Jóni Sigurðssyni, forstjóra Össurar í fréttatilkynningu: „COVID 19-heimsfaraldurinn hefur leitt til tímabundinna neikvæðra áhrifa á eftirspurn af stoðtækjum, spelkum og stuðningsvörum. Síðan í upphafi apríl hefur sala Össurar farið batnandi á öllum helstu viðskiptamörkuðum. Þrátt fyrir að sölutölu sýni greinileg batamerki er enn þá óljóst hversu lengi áhrifin af faraldrinum munu vara. Ég er sannfærður um að faraldurinn muni ekki leiða til breytinga á eftirspurn af vörum okkar og þjónustu til langs tíma," er meðal Þess sem kemur fram.