Bréf Snap Inc. móðurfélags samfélagsmiðilsins Snapchat féllu um 20% eftir að félagið tilkynnti um að tap þeirra á þriðja ársfjórðungi hefði meira en þrefaldast að því er kemur fram á vef The Wall Street Journal .

Félaginu er sagt hafa mistekist að uppfylla væntingar fjármálamarkaðarins um aukningu notenda og tekjur af auglýsingasölu.

Í samtali við greinendur sagði Evan Spiegel, forstjóri Snap, að félagið myndi fara í umfangsmiklar breytingar á meginvöru fyrirtækisins þ.e. snjallforritsins Snapchat. Forstjórinn sagði jafnframt að hann hefði ofmetið eftirspurn eftir myndbandsupptöku sólgleraugum fyrirtækisins Spectacles.

Félagið jók þó tekjur sínar um 62% á þriðja ársfjórðungi upp í 207,9 milljónir dala en greinendur höfðu spáð því að rekstrartekjur þess yrðu 236,9 milljónir dala. Vandræði félagsins eru því talin endurspegla hversu erfitt er að ná markaðshlutdeild af risunum tveimur á netauglýsingamarkaði, Facebook og móðurfélagi Google, Alphabet.

Töluvert hefur hægt á vexti nýrra notenda Snapchat undanfarna fimmtán mánuði en notendum forritsins fjölgaði aðeins um 2,89% á þriðja ársfjórðungi 2017.