Tekjur af útleigu íbúða á Airbnb hafa aukist töluvert á síðustu mánuðum eftir að þessi leigumarkaður fór í mikla lægð vegna faraldursins. Nýtingarhlutfall íbúða á þessum markaði var 73% í júlí en til samanburðar var þetta hlutfall 10% í janúar síðastliðnum, að því er kemur fram í mánaðarskýrslu HMS .

Fram kemur að tekjur af öllum Airbnb leigueiningum á höfuðborgarsvæðinu hafa aukist síðan í febrúar eftir að hafa náð lágmarki í janúar. Leigutekjurnar voru um 49% meiri í júlí 2021 samanborið við sama mánuð í fyrra, þó HMS bendir á að gögnin um þessar tekjur geti verið ónákvæm.

Þrátt fyrir þessa tekjuaukningu þá er ekki finna sömu fjölgun íbúða á þessum markaði. Fjöldinn hefur verið nokkuð stöðugur frá því í febrúar, hækkaði ögn í maí og júní en lækkaði aftur í júlí.

Heildarfjöldi leigueininga sem skráðar voru með virka auglýsingu var um 1.400 í júlí á höfuðborgarsvæðinu samanborið við um rúmlega 2.200 í sama mánuði í fyrra. Ef einungis heilar íbúðir sem eru í boði a.m.k. 20 daga í mánuði eru skoðaðar voru þær í kringum 630 í júlí samanborið við um rúmlega 1.300 í júlí í fyrra.

Í skýrslunni segir að út frá þeim gögnum sem nú liggja fyrir sé ekki hægt að greina tilfærslu á íbúðum af langtímaleigumarkaði yfir á skammtímaleigumarkað að svo stöddu. Líklegra sé að samdráttur í framboði af hentugu íbúðum á almenna leigumarkaðnum sé vegna þess að íbúðir hafi verið settar á sölu í ljósi óvissu í ferðaþjónustunni og þeirrar miklu eftirspurnar og verðhækkana sem hafa verið á íbúðarhúsnæði undanfarna mánuði.

Myndirnar eru teknar úr mánaðarskýrslu hagdeildar HMS fyrir september 2021.