Heildartekjur í viðskiptahagkerfinu voru tæplega 4.400 milljarðar króna árið 2018 en voru 4.140 milljarðar króna árið 2017 og hækkuðu því um 6,2% á árinu. Eigið fé jókst um 10,5% frá árinu 2017 og var í lok árs 2018 tæplega 3.300 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar sem undanskilur lyfjaframleiðslu, fjármála- og vátryggingarstarfsemi og opinbera starfsemi þegar hún fjallar um viðskiptahagkerfið, eða það sem í daglegu máli er kallað atvinnulífið.

„Helstu breytingar milli ára þegar horft er á hlutfallslega hækkun í heildartekjum eru í sjávarútvegi þar sem heildartekjur hækkuðu um 44 milljarða króna (15%), meðal- og hátækniframleiðslu sem hækkuðu um 13 milljarða króna (14%) og framleiðslu málma sem hækkuðu um 29 milljarða króna (13%). Þá hækkuðu heildartekjur einkennandi greina ferðaþjónustu um 31 milljarð króna (5%).

Eiginfjárstaða í viðskiptahagkerfinu batnaði milli ára eins og fyrr segir. Eigið fé í heildsöluverslunum jókst um 24 milljarða króna milli ára (20%), í meðal- og hátækniframleiðslu um 28 milljarða króna (20%) og í smásöluverslun um 28 milljarða króna (16%). Eigið fé í einkennandi greinum ferðaþjónustu lækkaði um 13 milljarða króna á árinu (-11%) sem má að mestu leyti rekja til lækkunar eigin fjár félaga í flugrekstri.

Launakostnaður jókst nokkuð á árinu og nam aukningin 61 milljarði króna (11%) í viðskiptahagkerfinu. Ef litið er á einstakar atvinnugreinar þá hækkar launakostnaður um 15% í meðal- og hátækniframleiðslu, 12% í einkennandi greinum ferðaþjónustu og 11% í sjávarútvegi.“