Á sunnudaginn var opnaði bensínstöð Costco fyrir utan vöruhús fyrirtækisins í Kauptúni í Garðabæ, þar sem bensínlítirinn fæst á 169,90 krónur eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá áður. Verslunin sjálf opnar svo klukkan 9:00 í dag.

Þegar á sunnudag höfðu 35 þúsund aðildarkort verið seld til einstaklinga og fyrirtækja, en einungis er hægt að versla hjá fyrirtækinu sem skilgreinir sig sem vöruhús með aðildarkorti.

Í gær var svo löng röð fyrir utan verslunina þegar enn fleiri voru að sækja sín aðildarkort, og sagði Brett Vigelskas framkvæmdastjóri Costco á Íslandi að ekki væri óvarlegt að skráningar séu farnar að nálgast 40 þúsund, að því er Vísir greinir frá.

Kort fyrir einstaklinga kostar 4.800 krónur og fyrirtækjakort 3.800 krónur, en stærsti hluti kaupenda eru einstaklingar svo varlega áætlað hefur fyrirtækið þegar fengið tæplega 200 milljónir króna frá íslenskum neytendum, og það áður en verslunin hefur opnað.