Árið 2017 var miðgildi heildartekna einstaklinga með grunnskólamenntun um 4,1 milljón króna á ári, einstaklingar á framhaldsskólastigi voru með 5,1 milljón króna og háskólamenntaðir með 7,5 milljónir króna. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar . Um er að ræða heildartekjur einstaklinga frá 16 ára aldri samkvæmt skattframtölum.

Samanburður á heildartekjum 25-74 ára eftir menntun

Ef miðgildi heildartekna fyrir aldurshópinn 25 til 74 ára eru borin saman kemur í ljós að einstaklingar með grunnskólamenntun voru með 4,9 milljónir króna á ári eða 409 þúsund krónur á mánuði. Til samanburðar voru einstaklingar á framhaldsskólastigi með 486 þúsund krónur á mánuði, eða um 19% hærri heildartekjur og háskólamenntaðir með 633 þúsund krónur á mánuði, eða 55% hærri heildartekjur en þeir sem voru eingöngu með grunnskólamenntun.

Nokkur munur getur verið á miðgildi heildartekna eftir menntunarstigi. Til dæmis voru heildartekjur einstaklinga með starfsnám á framhaldskólastigi nokkuð hærri en heildartekjur einstaklinga með bóknám á framhaldsskólastigi eða sem nemur um 18% árið 2017. Einstaklingar með meistaragráðu voru með um 23% hærri heildartekjur en einstaklingar með bakkalárgráðu og einstaklingar með doktorsgráðu voru með um 28% hærri heildartekjur en einstaklingar með meistaragráðu. Hafa ber í huga að hóparnir sem hér eru bornir saman eru misstórir, til dæmis voru einstaklingar með doktorsgráðu tæplega tvö þúsund árið 2017 en rúmlega 20 þúsund voru með meistaragráðu.