Rekstur Hvalasafnsins á Húsavík gengur vel. Á aðalfundi safnsins, sem haldinn var í  vikunni, kom fram að rekstrartekjur safnsins hefðu aukist um 32% á milli ára.  Þær námu tæpum 80 milljónum í fyrra samanborið við tæplega 60 milljónir árið 2015. Skýringin á þessu er nokkuð augljós. Safnið hefur náð að nýta sér þann meðbyr, sem orðið hefur með vexti ferðaþjónustunnar á Íslandi.

Árið 2015 sóttu 26 þúsund gestir safnið sem þótti gríðarlega gott. Í fyrra varð mikil aukning og í lok árs var ljóst að alls komu 36 þúsund gestir í safnið, sem þýðir að gestum fjölgaði um 38% milli ára.

„Reksturinn gekk heilt yfir vel," segir Valdimar Halldórsson, framkvæmdastjóri Hvalsafnsins. „Tekjur jukust mikið bæði vegna sölu aðgöngumiða en einnig vegna aukinnar minjagripasölu en við erum með litla minjagripabúð í safninu. Um 90% af okkar gestum eru erlendir ferðamenn en 10% Íslendingar. Hvalasafnið er sjálfseignarstofnun og er því ekki rekið í hagnaðarskyni. Eigið fé er farið að nálgast hundrað milljónir og samkvæmt samþykktum þá verður því fé farið í að byggja safnið frekar upp  og greiða niður skuldir."

Kostnaðarsöm sýning

Sýningarrýmið er ríflega þúsund fermetrar og geta gestir skoðað beinagrindur af mörgum tegundum hvala. Fyrir tæpu ári síðan var ný steypireyðarsýning opnuð og að sögn Valdimars hefur hún vakið mikla lukku. Hann segir að uppsetningu sýningarinnar hafi fylgt töluverður kostnaður, sem útskýri að stærstum hluta hvers vegna rekstrargjöld safnsins hafi aukist um tæpa 21 milljón króna á milli ára.

„Sumt var eignfært og annað gjaldfært," segir Valdimar. „Þessi nýja sýning hefur hefur vakið mikla athygli síðan hún var opnuð í mars í fyrra. Það eru átta eða níu beinagrindur af steypireyðum til í heiminum og ein af þeim er hér á safninu hjá okkur. Húsavík, eða Skjálfandaflói, er líka einn af fáum stöðum þar sem þú getur séð steypireyði. Í maí og júní geta ferðamenn farið og skoðað lifandi steypireyði í flóanum og komið síðan sýninguna og fræðst um þessa hvalategund.  Segja má má að Húsavík sé í dag  "the home of blue whale," segir Valdimar og vísar til þess að á ensku nefnist steypireyður "blue whale" en hvalurinn er stærsta spendýr jarðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .