Tap kanadíska kannabisframleiðandans Canopy Growth ríflega þúsundfaldaðist milli ára á síðasta ársfjórðungi, fór úr því að vera 91 milljón kanadadala í 1.281,2 milljónir kanadadala, eða sem nemur tæplega 118,9 milljörðum íslenskra króna.

Þar af er þó langstærsti hlutinn, eða 1.176,4 milljónir dala bókhaldslegt tap þar sem færa þurfti niður áður áætlaða nýtingu drykkjarvöruframleiðandans Constellation Brand á kauprétt til að eignast meirihluta í því. Samt sem áður nema sjóðir fyrirtækisins um 3,1 milljarði kanadadala, en leiðrétt EBITDA félagsins sýnir 92 milljóna kanadadala tap.

Constellation Brands, sem er m.a. framleiðandi Corona bjórsins, jók á síðasta ári hlut sinn í félaginu úr um 10% í tæplega 40%, en fyrr í sumar var fyrrum forstjóri og stjórnarformaður Canopy Growth látinn fara vegna óánægju Constellation Brands.

Selja neysluskammtinn á undir 600 krónur

Ársfjórðungurinn sem endaði í lok júní er í raun 1. ársfjórðungur fjárhagsársins fyrir 2020 hjá félaginu sýndi mikinn tekjuvöxt hjá félaginu. Fór salan úr 25,9 milljónum kanadadala í 103,4 milljónir eða sem samsvarar 9,6 milljörðum íslenskra króna.

Marijúana í neysluskömmtum nemur um 86% af sölumagni félagsins, en verð á gramminu hefur lækkað úr 7,28 dölum í 6,35 dali. Það nemur um 589 krónum. Í desember á þessu ári væntir félagið að geta byrjað að selja kannabis í mat- og drykkjarvörum, og vonast það eftir því að það auki söluna gríðarlega mikið.

Framleiddu um 41 tonn af maríuna

Framleiðslan hjá félaginu á tímabilinu fór töluvert fram úr væntingum um 34 þúsund kílógrömm og námu þau 40.960 kílógrömmum. Er það mikil aukning frá fyrstu mánuðum ársins þegar framleiðslan nam 14.500 kílógrömmum.

Á sama tíma hefur starfsmönnum verið fjölgað mikið, á sama tíma og það hefur tekið í notkun afkastamikil ný gróðurhús í Smiths Falls. Fóru starfsmennirnir úr 1.400 manns fyrir ári í 3.850 nú.

Hlutabréf félagsins, sem eru merkt með WEED í kanadísku kauphöllinni hafa lækkað töluvert frá því að þau náðu hápunkti í apríl í 69,90 kanadadölum þegar forstjórinn var látinn fara. Eru þau komin núna niður í 37,82 dali, eftir um 11,16% lækkun það sem af er degi.

Hér má sjá frekari fréttir um löglega kannabisframleiðslu: