Knattspyrnusamband Íslands gerir ráð fyrir að tekjur sambandsins á þessu ári verði um 2,3 milljarðar króna en þær námu 1,1 milljarði á síðasta ári. Þetta kemur fram í nýrri fjárhagsáætlun KSÍ .

Áætlunin gerir ráð fyrir að fá styrki á árinu fyrir um 1,75 milljarð króna en styrktarupphæð síðasta árs nam 584 milljónum króna. Mestan styrk fær sambandið frá UEFA, alþjóðaknattspyrnusambandinu, eða um 1,5 milljarð króna. Í fyrra nam styrkur KSÍ frá UEFA 356 milljónum króna. Kemur þetta til vegna þátttöku íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í Evrópumótinu í Frakklandi í sumar.

Gjöld munu einnig aukast vegna þátttökunnar en áætlaður kostnaður vegna A landsliðs karla á árinu mun nema um 808 milljónum króna en hann nam 228 milljónum í fyrra.

Gert er ráð fyrir því að hagnaður KSÍ á árinu muni nema um 622 milljónum króna en samkvæmt ársreikningi síðasta árs nam hann um 158 milljónum króna árið 2015. Standi áætlanir eftir mun því hagnaðurinn þrefaldast á milli ára.