Ríflega hundrað milljóna sveifla varð á afkomu pappírsvöruframleiðandans Papco hf. milli rekstraráranna 2017 og 2018. Félagið skilaði 64,3 milljóna kr. tapi í fyrra en hafði hagnast um 41,3 milljónir árið á undan. Tekjur af rekstri ríflega helminguðust, fóru úr milljarði króna í 460 milljónir.

Eignir félagsins námu í árslok 152 milljónum, voru 362 milljónir í lok árs 2017, og skuldir 149 milljónum en þær voru 295 milljónir í lok 2017. Þórður Kárason er framkvæmdastjóri Papco.

Árétting barst vegna þessarar fréttar frá Papco þar sem segir:

Í fréttinni er fjallað um afkomu Papco, byggða á ársreikningi félagsins fyrir rekstrarárið 2018. Þar kemur fram að tekjur Papco hafi helmingast frá fyrra rekstrarári. Sú fullyrðing er að vissu leiti rétt.

Þess var þó ekki getið í fréttinni að á árinu 2018 var Papco skipt upp í tvö félög, Papco hf. og Papco fyrirtækjaþjónusta ehf. Með þeim breytingum færðist fyrirtækjaþjónusta Papco yfir í sérstakt félag sem er í eigu Þórðar Kárasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Papco.

Einskaklingsþjónusta og framleiðsla félagsins er enn rekin undir merkjum Papco. Sú veltuminnkun sem getur um í fréttinni á sér því eðlilegar skýringar þar sem félaginu var skipt upp í tvennt.

Papco hefur um áratugaskeið veitt viðskiptavinum sínum framúrskarandi þjónustu og munu þær breytingar sem gerðar hafa verið á rekstrarfyrirkomulagi félagsins ekki breyta neinu þar um.