Heildarhagnaður Sýnar nam 181 milljón króna á fyrsta ársfjórðungi en til samanburðar tapaði félagið 268 milljónum á sama tímabili í fyrra. Velta fjarskiptafélagsins jókst um 13,6% frá fyrra ári og nam tæplega 5,7 milljörðum króna. Framlegð félagsins jókst um 24% og var yfir 2 milljarðar á fyrstu þremur mánuðum ársins.

„Það er ánægjulegt að segja frá því að innri tekjuvöxtur er 14% á milli ára. Við höfum haldið aftur af rekstrarkostnaði, sem hækkar minna en verðlag, og því eykst rekstrarhagnaður af reglulegri starfsemi (EBIT) um 359 milljónir króna,“ segir Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, í afkomutilkynningu .

Hann segir að ýmsir liðir sem hafi farið úr skorðum vegna Covid-faraldursins komi nú „jákvæðir inn í rekstur þegar líða tekur á árið“. Tekjur Endor og reikitekjur hafi aukist auk þess sem auglýsingasala er á uppleið en í fyrsta skipti voru auglýsingar á Vísi uppseldar á fyrsta ársfjórðungi. Heiðar bætir við að fyrirséð sé að starfsemi félagsins vaxi með nýju vöruframboði og uppbyggingu 5G og tengdrar tækni.

„Við erum því á góðri leið með að ná afkomu af reglulegri starfsemi upp í 100 m.kr. á mánuði að meðaltali yfir árið. Frjálst fjárflæði er einnig mjög sterkt og eykst um 603 m.kr. á tímabilinu.“

Eignir Sýnar námu 32,5 milljörðum króna í lok mars, samanborið við 36,5 milljarða um áramótin en félagið réðst í tveggja milljarða króna endurkaup í byrjun árs í kjölfar sölu á óvirkum farsímainnviðum. Eigið fé nam 8,9 milljörðum í lok fyrsta ársfjórðungs og var eiginfjárhlutfallið því 27,2%.

Í tilkynningu Sýnar kemur fram að félagið muni ekki halda uppgjörsfund vegna fyrsta ársfjórðungs. Í kjölfar breytinga á lögum um upplýsingaskyldu skráðra félaga verður Sýn þess aðeins með kynningar í kringum hálfsárs- og ársuppgjör.