Heildartekjur hugbúnaðarfyrirtækisins Tempo, dótturfélags Nýherja, voru 1.218 milljónir króna í fyrra, sem er 65 prósenta tekjuaukning frá árinu áður.

Í tilkynningu kemur fram að um 98% af tekjum Tempo urðu til utan Íslands og eru Bandaríkin stærsti markaðurinn. Þar varð meira en þriðjungur tekna fyrirtækisins til á árinu, og jukust tekjur þaðan um 78% milli ára. Tekjur frá Bretlandi jukust einnig um 66% milli ára og frá Þýskalandi um 56% frá fyrra ári.

Ágúst Einarsson, framkvæmdastjóri Tempo, segist himinlifandi með árangurinn á nýliðnu ári. „Við fengum yfir 2.000 nýja viðskiptavini árið 2015, sem var langt umfram spár. Starfsmannafjöldinn hefur einnig nær tvöfaldast á einu ári sem hefur gert okkur kleift að einblína á snjallsíma- og skýjalausnir okkar, sem og nýsköpun og vöruþróun. Rannsóknar- og þróunarkostnaður er okkar stærsti rekstrarliður þar sem yfir þriðjungur af tekjum fyrirtækisins fer í vöruþróun en við höfum fengið það margfalt til baka á árinu.”