Tekjur rafbílaframleiðandans Tesla Motors á fyrsta ársfjórðungi 2016 jukust um 45% milli ára. Tap varð af rekstri fyrirtækisins á fjórðungnum, en það var minna en spár gerðu ráð fyrir. Greint er frá þessu í frétt Time .

Sagt var frá því í vikunni að tveir yfirmenn væru að yfirgefa fyrirtækið og hlutabréfagengi Tesla Motors féll um 4% í kjölfarið. Eftir að fjórðungsuppgjörið var kynnt hækkuðu bréfin svo aftur um 4% og jafnaði tapið út.

Elon Musk, stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segist vilja selja hálfa milljón bifreiða á ári innan tveggja ára. Þetta er háleitt markmið, ef haft er í huga að á síðasta ári framleiddi Tesla rétt undir 50 þúsund bíla allt í allt.

Model 3 rafbíllinn verður þó fjöldaframleiddur - sem Model S og X tegundirnar eru ekki - sem þýðir að mögulega eru markmið hins metnaðarfulla Musk ekki svo fáránleg þegar allt kemur til alls.