Rekstrartekjur íslenska upplýsingatæknifyrirtækisins Endor tífölduðust á milli ára og námu 1.550 milljónum króna í fyrra, og er rúmlega 60% veltunnar tilkomin vegna verkefna fyrir erlenda viðskiptavini.  Rekstrarhagnaður var 100 milljónir og endanlegur hagnaður 70 milljónir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Í lok árs nam eigið fé Endor 133 milljónum og var eiginfjárhlutfallið 55%. Sagt er ljóst að rekstrartekjur árið 2018 muni aukast milli ára og áætlanir félagsins fyrir árið 2019 gera ráð fyrir áframhaldandi vexti. Ekki er gert ráð fyrir útgreiðslu arðs fyrir árið 2017.

Endor hefur vaxið hratt frá stofnun árið 2015. Fjárfestingafélagið Óskabein gekk frá frá kaupum á fjórðungshlut í Endor á árinu 2017. Var fjárfestingin liður í uppbyggingu Endor á Evrópumarkaði en það árið gerði Endor meðal annars stóran samning, sem metinn er á nokkra milljarða, um afhendingu á ofurtölvureiknigetu til þýska bílaframleiðandans BMW.  Samningurinn er til fimm ára og nú er unnið að frekari útvíkkun á honum á öðrum mörkuðum.

Gunnar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Endor: „Rekstur og afkoma Endor síðasta ár var ánægjuleg og við erum mjög sátt við árið. Viðtökur markaðarins eru jákvæðar, félagið vex hratt og Endor hefur  gert trausta langtímasamninga við öfluga aðila hérlendis og erlendis þannig að við erum mjög spennt fyrir framhaldinu og áframhaldandi vexti.”

Endor er ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í að hámarka rekstrarhagkvæmni fjárfestinga í upplýsingatækni og nýtir til þess nýjustu tækni í sjálfvirknivæðingu. Félagið vinnur með fjölbreyttum hópi viðskiptavina og má þar nefna Íslandsbanka, DK hugbúnaðarhús, RÚV, Reiknistofu bankanna og Íslandshótel.  Stærsti einstaki viðskiptavinur og samstarfsaðili Endor er franski upplýsingatæknirisinn ATOS, sem meðal annars gengdi lykilhlutverki varðandi upplýsingatæknimál Ólympíuleikanna.