Tap Fríhafnarinnar nam 604,8 milljónum króna fyrir skatta árið 2020, samanborið við 281,9 milljóna króna hagnað árið áður. Því var ríflega 887 milljóna króna neikvæður viðsnúningur á afkomu Fríhafnarinnar á síðasta ári. Þetta kemur fram í ársreikningi Isavia sem birtist í dag.

Tekjur Fríhafnarinnar, dótturfélags Isavia, voru 3,4 milljarðar króna, samanborið við 13,2 milljarða árið áður. Tekjusamdráttur Fríhafnarinnar var því 74,1% árið 2020.

Sjá einnig: Tap Isavia 13,2 milljarðar árið 2020

Heildareignir Fríhafnarinnar námu 1,3 milljörðum króna í árslok 2020. Þær lækkuðu um 59% milli ára eða úr ríflega þremur milljörðum, samkvæmt ársreikningi Fríhafnarinnar fyrir árið 2019. Eigið fé lækkaði úr 1.248 milljónum króna í árslok 2019 í 644 milljónir í lok árs 2020. Skuldir félagsins námu 617 milljónir króna í lok síðasta árs, samanborið við 1,8 milljarða árið áður.