Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir mjög mikla hnökra til staðar í samspili almannatrygginga og lífeyrissjóðakerfisins. Hún telur tekjutengingar milli kerfanna ganga of langt enda séu jaðaráhrifin mjög mikil.

Hvaða hættur kunna að steðja að lífeyriskerfinu?

„Hröð öldrun þjóðarinnar er auðvitað áskorun til lengri tíma litið, en það hefur svo sem legið fyrir í dágóðan tíma. Það sem veldur mér hins vegar talsverðum áhyggjum er samspilið milli almannatryggingakerfisins og lífeyrissjóðakerfisins. Það eru svo miklar tekjutengingar milli kerfanna. Margir eru óánægðir en stór hluti af þeim sem eru á lífeyri í dag finnur lítið fyrir því í eigin vexti að þeir hafi lagt fyrir í lífeyrissjóð.

Samspilið milli kerfanna virkar þannig að um leið og þú færð greiðslur frá lífeyrissjóðakerfinu þá lækka greiðslur almannatrygginga. Íslenska lífeyrissjóðakerfið var byggt upp sem þriggja stoða kerfi, með almannatryggingakerfinu, lífeyrissjóðunum og frjálsum viðbótarlífeyrissparnaði. Núna virðist þróunin hafa verið talsvert mikið á þá leið að fyrst lífeyrissjóðakerfið er orðið svona öflugt þá hafi stjórnvöld kannski leyft sér að veikja svolítið almannatryggingakerfið.

Auðvitað er það þannig að ef það er mikið lagt í almannatryggingar, þá eykst skattbyrðin. Tekjutengingar eru sjálfsagðar en það virðast flestir sammála um að nú sé gengið of langt í þessum tekjutengingum. Maður finnur fyrir því að það er mikil óánægja í gangi, sérstaklega meðal þeirra sem leggja allt sitt í samtryggingarsjóði. Jaðaráhrifin eru svo mikil.

Ég vil leggja áherslu á að ég er alls ekki á móti tekjutengingum. Þær eiga að vera til staðar. En eins og þær eru í dag þá ganga þær of langt. En ef það á að minnka tekjutengingar hlýtur það að kalla á aukin útgjöld hjá ríkinu. Ég held að það sé óhjákvæmilegt vegna þess að það er engin sátt um kerfið og þetta samspil eins og það er núna.

Hnökrar í samspili almannatrygginga og greiðslna frá lífeyrissjóðum eru mjög miklir þegar kemur að áfallalífeyri. Það er víxlverkun í kerfinu sem virkar þannig að þegar lífeyrissjóðir hækka sínar greiðslur þá lækkar Tryggingastofnun örorkulífeyrinn fyrir þennan jaðarhóp. Það þarf að skýra vel hvert hlutverk almannatrygginga eigi að vera í örorkulífeyri og hvert hlutverk lífeyrissjóðanna eigi að vera.

Örorkubyrði lífeyrissjóðanna er mjög ólík. Sumir sjóðir eru að greiða mjög háan örorkulífeyri og þá verður minna eftir til greiðslu eftirlauna. Ríkið hefur verið að koma inn með örorkuframlag, eins konar jöfnunarframlag, sem á að koma til móts við þetta að einhverju leyti. Það eru eiginlega allir sammála um að þetta sé úr sér gengið og að nauðsynlegt sé að finna farsæla lausn til framtíðar.

Þarna þarf skýra framtíðarsýn. Ég held að það væri mjög æskilegt ef ríkið kæmi að einhvers konar endurhæfingarlífeyri í grunnferlinu, og svo komi lífeyrissjóðirnir fyrst inn á greiðslur þar sem starfsorkuskerðing er metin sem varanleg. Þetta þurfa fagmenn, stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins að ræða og móta. Þetta er heljarinnar verkefni, en við getum ekki horft fram hjá því að stundum þarf að taka erfiðar ákvarðanir. Það verða aldrei allir sáttir.“

Nánar er rætt við Þóreyju S. Þórðardóttur í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .