Christine Lagarde, bankastjóri Evrópska seðlabankans tók af öll tvímæli í ræði sem hún hélt í Slóveníu í gær um hvað bankinn muni til bragðs taka vegna vaxandi verðbólgu. Í ræðunni lýsti hún yfir að bankinn muni láta af kaupum á skuldabréfamarkaði á þriðja fjórðungi og hækka stýrivexti í kjölfarið. Þetta þýðir að vaxtahækkunin mun að öllum líkindum koma til framkvæmda í júlí.

Fram kemur í umfjöllun Financial Times um ræðu Lagarde að hún hafi ítrekað nauðsyn þess að Evrópski seðlabankinn grípi til trúverðugra aðgerða í baráttunni gegn verðbólgu og til að slá á verðbólguvæntingar. Bankinn hefur ekki hækkað stýrivexti í meira en áratug og hafa til að mynda innlánsvextir verið neikvæðir frá árinu 2014. Evrópski seðlabankinn hefur þurft að beita aðhaldslítilli peningamálastefnu vegna djúpstæðs skuldavanda margra aðildarríkja evrunnar.

Samkvæmt Financial Times búast flestir við að bankinn muni byrja á að hækka vexti um 25 punkta í júlí. Verðbólga á evrusvæðinu mælist nú 7,5% og hefur aldrei verið hærri frá því að myntsamstarfinu var hrint í framkvæmd í núverandi mynd.