Á næstunni er væntanleg í verslanir ný vörulína frá Blush sem hönnuð er frá grunni af þeim sem að félaginu standa. Að sögn Gerðar Huldar Arinbjarnardóttur, stofnanda og eiganda unaðstækjaverslunarinnar, gætu vörurnar átt erindi á erlenda markaði.

Síðasta ár var gjöfult hjá versluninni en í ljósi aðstæðna í samfélaginu jókst verslun gegnum netið talsvert. Nú sinna þrír starfsmenn lagernum og netversluninni í fullu starfi. Merkjanlegur munur er á því hvað selst betur í netversluninni en í versluninni sjálfri. Grófari leikföng og runkmúffur seljist til að mynda frekar gegnum vefinn á meðan klassískari tæki, á borð við egg, titrara og gervilimi, séu meira keypt á staðnum.

Það ætti vart að hafa farið framhjá neinum að umræða um kynlífsleikföng og kynlíf hefur orðið opnari á undanförnum árum. Það má til að mynda sjá á því að verslunum í þessum geira hefur fjölgað umtalsvert síðustu mánuði. Þrátt fyrir það er að mati Gerðar enn til staðar rými á markaðnum.

„Fjöldi framleiðenda á þessum markaði telur þúsundir en þrátt fyrir það er framboðið hér heima nokkuð einsleitt. Það er því pláss fyrir nýjar og spennandi hugmyndir ef viljinn er fyrir hendi,“ segir Gerður. Þó sé stundum erfitt að feta hinn gyllta meðalveg. „Við vitum af alls konar blætum sem eru nokkuð óafskipt hér heima en það þarf alltaf að vega og meta hvort það er réttlætanlegt, út frá viðskiptalegum forsendum, að stíga þar inn. Sér í lagi í ljósi þess hve auðvelt getur verið að panta vörur að utan.“

Nýsköpun fyrir sköp

Þegar Gerður hóf þessa vegferð óraði hana ekki fyrir því að nokkrum árum síðar yrði hún komin á þann stað að fyrirtækið hennar væri að fara að gefa út eigin vörulínu. Sú er hins vegar reyndin nú, en hún er væntanleg í verslanir fyrir áramót ef birgðakeðjur bresta eigi. Gerður segir að ekki sé tímabært að segja frá henni í smáatriðum nú en gefur þó upp að frá sjónarhóli líffræðinnar henti hún kvenkyni betur.

„Hér er ekki um það að ræða að taka eitthvað af færibandi í Kína og skella merki Blush á það. Línan er teiknuð og hönnuð frá grunni og framleidd eftir okkar höfði. Við höfum tíu ára reynslu af markaðnum, vitum hvað virkar og hvað ekki og hvar er skortur og hvar ekki,“ segir Gerður og bætir því við að vörurnar muni búa yfir eiginleikum sem ekki er mikið til af á markaðnum nú. „Það skapar þeim ákveðna sérstöðu og að okkar mati er pláss fyrir hana í verslunum erlendis. Hvort sem við endum á að selja hana út eður ei er framtíðin í það minnsta björt,“ segir Gerður að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .