Matsfyrirtækið Moody's telur að fyrirhugað aflandskrónuútboð Seðlabankans, sem verður haldið á næstunni eftir að frumvarp efnahags- og fjármálaráðherra var samþykkt á Alþingi, muni hafa jákvæð áhrif á lánshæfismat íslenska ríkisins. Þetta kemur fram í nýrri umsögn sem Moody's sendi frá sér í dag.

Í umsögninni segir að útboðið gefi fjárfestum tækifæri til þess að færa fjármagn sitt, sem bundið er gjaldeyrishöftum, úr landi - óski þeir þess að gera það. Útboðið gæti þá orðið til þess að létta á þrýstingi sem myndast hefur á innlendar eignir vegna haftanna - en til að mynda má rekja mikla styrkingu krónunnar til þess að mati Moody's.

Sérfræðingar Moody's telja tímasetningu útboðsins skynsamlega þar sem stjórnvöld biðu með að halda slíkt útboð þar til gjaldeyrisforði þjóðarinnar var orðinn nægilega stór til að taka mætti á aflandskrónuvandanum, en að forðinn dygði jafnframt fyrir mögulegri erlendri fjármagnsþörf hagkerfisins.