Yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis telur að hún hafi í einu og öllu farið að lögum varðandi framkvæmd þingkosninga og talningu atkvæða fyrir rétt tæpum mánuði. Ekkert hafi komið fram sem bendir til þess að slíkir ágallar hafi verið á kosningunni að til ógildingar og uppkosningar eigi að koma.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í bréfi meirihluta yfirkjörstjórnarmanna til undirbúningskjörbréfanefndar. Tveir kjörstjórnarmenn af fimm rita ekki undir bréfið þar sem þeir telja það ekki rétt í ljósi þess að sakamálarannsókn standi yfir vegna málsins. Fregnir hafa verið fluttar af því að kjörstjórnarmönnum hafi verið boðið að ljúka málinu með sektargreiðslu vegna brota á kosningalögum.

Í bréfinu er hverri kæru svarað lið fyrir lið og byrjað á samhljóða kærum Guðmundar Gunnarssonar, Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur og Hólmfríðar Árnadóttur en þau eiga það öll sameiginlegt að hafa dottið út af þingi í kjölfar endurtalningar. Í þeirri kæru er meðal annars byggt á því að engin lagaheimild hafi verið til endurtalningar.

Fráleitt að ekki megi endurtelja

„Það er í raun fráleitt að halda því fram að ekki meig endurtelja því það getur vel gerst að þegar yfirkjörstjórn/kjörstjórn telur talningu lokið að í ljós komi að vankantar séu á talningunni og breytir þá í engu hverju þeir vankantar séu fólgnir,“ segir í bréfi yfirkjörstjórnar.

Í bréfinu er enn fremur vikið að „bollaleggingum kærenda“ um að eitthvað óeðlilegt hafi átt sér stað við breytingar á fjölda auðra og ógildra seðla í kjölfar endurtalningar. „Það var enginn ágreiningur um það í [yfirkjörstjórn] hvaða kjörseðlar væru ógildir og umboðsmenn gerður engar athugasemdir við niðurstöðu hvað það varðar,“ segir í bréfinu.

„Aðdróttanir [sic] um að auðum kjörseðlum hafi verið breytt „í seðil sem virðist vera gilt atkvæði“ eða gildu atkvæði hafi verið breytt í ógilt er harðlega mótmælt. […] Aðdróttanir þessar eru mjög alvarlega og sérstaklega vegna þess að þær eru algerlega órökstuddar. Í raun er um rangar sakargiftir að ræða sem eru refsiverðar,“ segir í bréfinu.

Vilji þóknanlegt þing í stað réttra talna

Í andsvörum við kæru Katrínar Oddsdóttur, lögmanns og formanns Stjórnarskrárfélagsins, segir kjörstjórnin að kærandi „virðist líta þannig á að löggjafarsamkoman eigi að vera skipuð fulltrúum sem kærandi eða hugsanlega einhver annar telur heppilegt að þar eigi sæti en vilji kjósanda eigi þar ekki að ráða för. Þess vegna sé líklega í lagi að byggja niðurstöður kosninga á tölum sem urðu til fyrir mannleg mistök frekar en réttum tölum.“

Er bent á að Katrín telji það slæmt að endurtalning hafi leitt til þess að í hennar kjördæmi hafi dottið út af þingi „ungur kvenkyns þingmaður af erlendum uppruna“ sem hefði verið mikilvæg rödd á þingi. Enn fremur hafi verið slæmt að dottið hafi út „fyrsti kvenmeirihluti á löggjafarþingi í Evrópu á milli talninga“.

„Kærandi virðist því líta þannig á að það sé í lagi að byggja niðurstöður kosninga á röngum tölum ef samsetning Alþingis yrði þannig meira að hennar skapi eða hugsanlega annarra,“ segir í bréfinu. Þar segir enn fremur að „ekki [sé] orðum eyðandi“ á umfjöllun um pólitísk tengsl kjörstjórnarmanna. Þar séu á ferð dylgjur og aðdróttanir sem sé í engu hægt að taka mark á.

„Verður að telja í meira lagi undarlegt að slíkur malatilbúnaður sé hafður uppi af lögfræðingi og formanni Stjórnarskrárfélagsins sem vill væntanlega láta taka sig alvarlega,“ segir í bréfinu.

Magnús talsvert frá því að ná inn

Hvað kærur Píratanna Magnúsar Davíðs Norðdahl og Lenyu Rúnar Taha Karim, sú síðarnefnda fékk ekki jöfnunarsæti í kjölfar endurtalningar en Magnús var talsvert langt frá því að ná inn, varðar er meðal annars vikið að „aðdróttunum“ þeirrar síðarnefndu um að oddviti kjörstjórnar hafi spillt kjörgögnum. „Raunar er um rangar sakargiftir að ræða sem eru refsiverðar,“ segir í bréfinu.

Í kæru Magnúsar fullyrt að hann hafi vantað örfá atkvæði til að vera kjörinn þingmaður í kjördæminu. „Ekki er ljóst hvernig kærandi fær þessa útkomu. Að baki síðasta kjördæmakjörna þingmanni í Norðvesturkjördæmi eru 1.483 atkvæði en P-listi fékk 1.081 atkvæði eða 401 atkvæði færra en eru að baki fyrrgreindum þingmanni. […] Ekki er því ljóst á hverju útreikningur kæranda byggir,“ segir í bréfinu.

Enn fremur er bent á það að Píratar hafi ekki séð ástæðu til þess að hafa umboðsmann viðstaddan í fyrstu atrennu atkvæðatalningar í kjölfar lokunar kjörstaða. Þá hafi Magnús fengið að skoða öll vafaatkvæði og fletta í gegnum auða seðla. Í kærunni séu því að finna fullyrðingar settar fram gegn betri vitund.

Kæra Þorvaldar Gylfasonar er afgreidd snögglega með því að segja að ekki þyki „ástæða til að elta ólar við mis áreiðanlegar tilvitnanir í fjölmiðlum vegna málsins enda hafa þær enga þýðingu í þessu máli.“