IFS Greining mælir með kaupum á hlutabréfum Icelandair Group í verðmati á félaginu sem kom út á dögunum. Samkvæmt nýja matinu er verðmatsgengið 19,9 krónur á hlut og lækkar um 2 krónur frá fyrra verðmati sem kom út í maí. Þrátt fyrir að verðmatið lækki um 9,6% frá fyrra mati er félagið verðmetið 24,3% yfir dagslokagengi þann 16. ágúst.

Gengi bréfa Icelandair hefur lækkað um 30% það sem af er þessu ári. Þann 31. janúar síðastliðinn sendi félagið frá sér afkomuviðvörun þar sem greint var frá því að EBITDA ársins 2017 yrði töluvert lægri en á árinu 2016. Daginn eftir lækkaði hlutabréfaverð félagsins um 24%. Síðan þá hefur gengi bréfa félagsins verið á bilinu 13,2-16,8 krónur á hlut. Síðastliðinn föstudag var greint frá því að þeir Björgólfur Jóhannsson forstjóri félagsins, og Bogi Nils Bogason, fjármálastjóri Icelandair Group, höfðu keypt bréf í félaginu fyrir samtals 18 milljónir króna. Frá því að tilkynningin birtist hefur gengi hlutabréfa félagsins hækkað um 12,6% og stendur nú í 16 krónum á hlut við lokun markaða þann 16. ágúst.

Í verðmatinu segir að uppgjör Icelandair Group fyrir annan ársfjórðung hafi verið í takt við afkomuspá IFS. Tekjur félagsins og EBITDA voru í samræmi við væntingar og þá hafi tekjur frá fraktflugi aukist um 25% á ársgrundvelli á ársfjórðungum. Þó er velt upp þeirri spurningu hvort launakostnaður félagsins sé kominn úr böndunum. Launakostnaður á öðrum ársfjórðungi nam 125,8 milljónum dollara sem er hækkun upp á 39%. Reyndist launakostnaður 13,1 milljón dollara hærri en afkomuspá IFS hafði gert ráð fyrir. Samkvæmt verðmatinu skýrist það að miklu leyti af aukinni áherslu Icelandair á upplýsingatækni.

Icelandair Group hækkaði EBITDA spá sína fyrir árið 2017 í 150-160 milljónir dollara úr 145-155 milljónum dollara vegna gengisþróunar, við birtingu uppgjörs fyrir annan ársfjórðung. IFS gerir ráð fyrir því að EBITDA ársins muni nema 159,6 millj- ónum dollara og stendur nánast í stað frá fyrra mati. Athygli vekur að samkvæmt spá IFS er gert ráð fyrir því að EBITDA verði lægri á næstu tveimur árum en árin 2015 og 2016.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .