Þjóðaröryggisstefna Íslands kveður skýrt á um að hér á landi skuli vera fyrir hendi mannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar.

Þáttaskil urðu í öryggispólitísku umhverfi Evrópu við ólögmæta innlimun Rússlands á Krímskaga árið 2014 og hafa áskoranir og ógnir smám saman tekið á sig flóknari mynd síðan þá, ekki síst með innrás Rússlands í Úkraínu fyrr á árinu. Þessi þróun hefur kallað á endurskoðun viðmiða og viðbúnað meðal vestrænna landa. Þá hefur bráðnun heimskautaíss sem opnar fyrir nýjar siglingaleiðir og aðgengi að ónýttum náttúruauðlindum haft öryggistengdar afleiðingar sem snerta Ísland með beinum hætti.

Sjá einnig: Risa fjár­festing Banda­ríkja­hers á Íslandi

Áformuð uppbygging styður við evrópskt fælingarframtak bandaríska hersins, á ensku European Deterrence Initiative (EDI), sem kynnt var sumarið 2014, skömmu eftir að Rússland innlimaði Krímskagann. EDI felur í sér heræfingar og þjálfun á landi, í lofti og á sjó ásamt því að viðhalda hreyfanlegri viðveru bandaríska hersins í Evrópu fyrir tilstilli aðstöðu víða undir farandflugherstöðvar. Hernaðarinnviðir á lykilstöðum eru þannig nauðsynlegir æfingum og hernaðarstarfsemi.

Núverandi aðstaða ófullnægjandi

Sem stendur er engin aðstaða til staðar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem uppfyllir kröfur EDI. Veðurfar hér á landi er þess eðlis að það hentar illa til að geyma búnað og tæki hersins utan sérstakrar rakastýrðrar aðstöðu.

Í áætlun hersins er sérstaklega fjallað um afleiðingar þess ef ekki yrði af uppbyggingunni. Þar segir að flotaflugstöðin bjóði ekki upp á nægilega stór, rakastýrð og loftræst geymslurými fyrir búnað og tæki sem styðja farandflugherstöð. Vegna þessa neyðist herinn til þess að nýta þau opnu geymslusvæði og flugskýli sem fyrir eru en þau verndi ekki verðmætar eignir hersins fyrir krefjandi og síbreytilegum veðuraðstæðum, sem útsetur eignir hersins fyrir rakaskemmdum.

Mikil áhætta sé á að viðbrögð hersins tefjist vegna viðgerða og endurbóta á búnaði og tækjum sem liggi undir skemmdum vegna aðstöðuleysis.

Sjá einnig: 26,5 milljarðar í hernaðaruppbyggingu

Uppbyggingin á þannig að auka viðbrögð bandaríska flughersins í Evrópu þar sem tryggt verður að tæki og búnaður hersins séu varin og þeim viðhaldið þannig að þau séu ávallt tilbúin til notkunar.

Frumgreining á mögulegum valkostum í stöðunni - það er óbreytt staða, endurbætur á núverandi aðstöðu eða ný uppbygging - leiddi í ljós að eina leiðin til að uppfylla kröfur EDI væri að ráðast í nýja uppbyggingu.

Breið samstaða um varnarmál

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra Ísland taka skyldum sínum sem hluti af Atlantshafsbandalaginu ákaflega alvarlega. Í því felist meðal annars að bregðast jákvætt við beiðnum um uppbyggingu á aðstöðu á Íslandi.

„Áform um uppbyggingu á varnarsvæðinu eiga sér nokkuð langan aðdraganda en allur hinn vestræni heimur er meðvitaðri um mikilvægi sameiginlegra varna nú en verið hefur um árabil," segir Þórdís.

Hún telur breiða samstöðu vera um þetta mál í ríkisstjórninni og almennt. „Ég tel að það sé breið samstaða um það innan stjórnmálanna og í íslensku samfélagi að Ísland leggi sitt af mörkum til þess að standa með vina- og bandalagsþjóðum okkar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .