Ólafur Þór Haukson, héraðssaksóknari segir að hann hafi aldrei séð sönnunargögn sem bendi til þess að rússneskir fjármunir hafi farið í gegn um íslensku bankanna. Þetta kemur fram í grein Timothy L. O'Brien á Bloomberg . Í greininni segir Ólafur þó að hans rannsókn á íslenska bankahruninu hafi að mestu leyti snúið að innlendum brotum og hafi því ekki rannsakað fall bankanna í alþjóðlegu samhengi.

Greinin sem kom út í dag er framhald af umfjöllun O'Brien um möguleg tengsl FL Group við Rússland . Telur O'Brein að rannsakendur á tengslum Donald Trump við Rússland þurfi að líta til Íslands, þar sem Trump átti viðskipti við Bayrock Group sem var að hluta í eigu FL Group. Fóru viðskipti Bayrock og Trump þannig fram að Bayrock fjármagnaði byggingu á Trump Soho hótelinu.

Í greininni er einnig rætt við Evu Joly. Þegar O'Brein spurði hana út í tengsl FL Group við Rússland sagði Joly: „Ég hef beðið eftir því í 10 ár að blaðamaður labbi inn á skrifstofuna hjá mér og spyrji mig þessara spurninga."

Segir Joly að líkt og Ólafur hafi hún aldrei fundið nein sönnunargögn um að rússneskir fjármunir höfðu farið í gegn um íslensku bankana. Hún hafi hins vegar viljað rannsaka það nánar hvaðan peningarnir sem flæddu inn í íslenska bankakerfið hafi raunverulega komið. Hún segir hins vegar að til þess hafi verið þörf á samvinnu frá stjórnvöldum í öðrum löndum og til þess hafi aldrei komið.

„Það voru gífurlega háar fjárhæðir sem komu inn í bankana, upphæðir sem ekki er eingöngu hægt að útskýra með lánveitingum Seðlabankans. Einungis glæpasamtök gætu hafa brúað þetta bil," Sagði Joly að lokum.