Tesla hefur fjárfest í Bitcoin fyrir 1 og hálfan milljarð Bandaríkjadala, andvirði um 200 milljarða íslenskra króna, og hyggst hefja að taka við greiðslu fyrir bíla sína í rafmyntinni í náinni framtíð. Þetta kemur fram í tilkynningu sem rafbílaframleiðandinn birti yfirvöldum fyrr í dag.

Í tilkynningunni segir að rafmyntakaupin hafi átt sér stað eftir að félagið bætti stafrænum eignaflokkum, gulli og gullsjóðum í fjárfestingastefnu sína. Viðtaka Bitcoin sem greiðslu verði takmörkuð í fyrstu, og háð löggjöf viðkomandi svæðis hverju sinni.

Virði Bitcoin, sem almennt er nokkuð sveiflukennt, hækkaði um allt að 13% í kjölfar yfirlýsingar Tesla og fór hæst í tæpa 44 þúsund dali á einingu, eða um 5,7 milljónir króna.

Áður hafði virði rafmyntarinnar hækkað um 17% um daginn þegar Elon Musk, stofnandi og forstjóri Tesla, setti #bitcoin í persónulega lýsingu sína á Twitter, en nokkrum dögum síðar tilkynnti hann að hann hygðist taka sér hlé á Twitter.

Hléið entist þó ekki lengi. Í gær virtist hann sýna annarri rafmynt, Dogecoin, stuðning þegar hann spurði hver hefði hleypt „Doge“ út, og vísaði þar til þekkts tónverks um lausa hunda og leitinni að frelsara þeirra.

Nokkuð ljóst mátti þó vera, á hástöfum orðsins og rithættinum „Doge“ í stað „dogs“ að þar átti auðjöfurinn og frumkvöðullinn umdeildi við rafmyntina, sem segja má að sé hápunktur jarm-væðingar rafmynta og peningamála.

Bitcoin hefur hækkað mikið í verði síðustu misseri eftir nokkra lægð síðustu ár í kjölfar ævintýralegrar hækkunar í 20 þúsund dali jólin 2017. Sá múr var loks rofinn á ný nú um síðustu jól, og skömmu eftir áramót hafði rafmyntin náð 40 þúsund dölum, en lækkaði svo nokkuð aftur.

Hlutabréf Tesla hafa líka verið á ansi góðri siglingu, en þau hafa hátt í tólf-faldast frá lágpunkti síðasta árs í mars. Rafbílaframleiðandinn er nú metinn á 800 milljarða dala og er langtum verðmætasti bílaframleiðandi heims.