Rafbílaframleiðandinn Tesla hyggst skipta hlutabréfum sínum í fimm hluta, þ.e. að hluthafar fá fimm hlutabréf fyrir hvern hlut í félaginu. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn í sögu félagsins sem það gefur út jöfnunarhlutabréf (e. stock split).

Gengi Tesla hækkaði um 7% í viðskiptum eftir lokun markaða, þrátt fyrir að framkvæmdin hafi engin bein áhrif á markaðsvirði. Sumir telja þó fleiri og ódýrari hlutabréf vera aðlaðandi fyrir smærri fjárfesta en einnig gæti það verið merki um að stjórn félagsins hafi trú á hagnaðarhorfum til framtíðar.

Tesla sagði að útgáfa jöfnunarhlutabréfanna væri til þess að gera „eign hlutarbréfa aðgengilegri fyrir starfsmenn og fjárfesta,“ að því er segir í frétt Financial Times . Hver hlutur í bílaframleiðandanum mun engu að síður kosta rúmlega 295 dollara, eða um 40 þúsund krónur.

Hlutabréf Tesla hafa hækkað um meira en 240% á árinu en almennir fjárfestar virðast hafa mikinn áhuga og trú á félaginu. Fjöldi notenda Robinhood, smáforrits fyrir viðskipti hlutabréfa með engum þóknunargjöldum, sem eiga hlutabréf Tesla hefur aukist úr 180 þúsund í mars í 550 þúsund í dag.