Rafbílaframleiðandinn Tesla seldi ríflega 139 þúsund bíla á þriðja ársfjórðungi 2020, frá og með júlí og til október. Félagið hefur aldrei selt jafn marga bíla á einum ársfjórðungi en spár höfðu gert ráð fyrir 137 þúsund seldum bílum.

Það sem af er ári hefur Tesla selt 318 þúsund bíla, þrátt fyrir lokanir fyrr á árinu vegna kórónufaraldursins. Í janúar hygðist félagið selja alls 500 þúsund bíla á þessu ári sem væri rúmlega þriðjungs hækkun frá árinu áður. Umfjöllun á vef Wall Street Journal.

Sjá einnig: Viðburðaríkt ár hjá Nikola & Tesla

Gerir WSJ ráð fyrir að Tesla muni skila met hagnaði á þriðja ársfjórðungi sem væri fimmti fjórðungurinn í röð sem félagið hagnast. Tesla hefur enn sem komið er aldrei hagnast á öllum ársfjórðungum sama árs.

Á föstudag í síðustu viku lækkuðu hlutabréf Tesla um ríflega sjö prósentustig en hafa þau hækkað um tæplega þrjú prósent fyrir opnun markaða. Þau standa í 425 Bandaríkjadölum hvert en hæst fóru þau í tæplega 500 Bandaríkjadali í lok ágúst á þessu ári. Markaðsvirði félagsins er um 387 milljarðar Bandaríkjadala en til samanburðar er markaðsvirði Toyota tæplega 182 milljarðar Bandaríkjadala sem gerir Toyota um leið næst verðmætasta bílaframleiðanda heims.