Tesla er á höttunum eftir þremur sýningarrýmum í þremur mismunandi borgum á Indlandi. Mun þetta vera liður í áætlunum rafbílaframleiðandans að herja inn á Indverska markaðinn. Reuters greinir frá.

Í janúar stofnaði Tesla félag í Indlandi utan um stefsemina þar í landi. Hyggst félagið hefja sölu á Model 3 bifreiðinni um mitt ár og ku markhópurinn vera velstæðir íbúar landsins.

Sýningarrýmin sem Tesla er á höttunum eftir eru sögð þurfa að vera á bilinu 1850 til 2790 fermetrar að stærð. Borgirnar þrjár sem fyrr hafa verið nefndar eru sagðar vera höfuðborgin New Delhi, viðskiptaborgin Mumbai og tækniborgin Bengaluru.