Rafbílaframleiðandinn Tesla skilaði mesta tapi frá upphafi á fjórða ársfjórðungi 2017 að því er The Wall Street Journal greinir frá . Tapið nam 675 milljónum dala eða rúmum 69 milljörðum króna á gengi dagsins í dag. Þrátt fyrir að vera mesta tap félagsins frá upphafi var það engu að síður minna en greinendur höfðu gert ráð fyrir.

Fyrirtækið, sem er jafnan kennt við milljarðamæringinn Elon Musk, sagði þó að það byggist við að skila samfelldum rekstrarhagnaði í fyrsta skipti einhverntíman á þessu ári.

Tesla hefur glímdi við mikla erfiðleika í framleiðslu á síðasta ári og lét Musk meðal annars hafa eftir sér að félagið væri í svokölluðu framleiðslu helvíti. Ef marka má yfirlýsingu sem félagið gaf frá sér við uppgjörið virðist þó sem það sé hægt og bítandi að vinna sig út úr framleiðsluerfiðleikunum.