„Árið 2021 var frábært ár í Kauphöllinni," segir Magnús Harðarson, forstjóri kauphallar Nasdaq á Íslandi. Gleði Magnúsar yfir gengi síðasta árs er vel skiljanleg þar sem Kauphöllin átti góðu gengi að fagna. Til marks um það hækkaði gengi allra tuttugu félaganna sem skráð eru á aðalmarkað um á bilinu tíu til hundrað prósent. Þá jókst fjöldi viðskipta á árinu um tæplega áttatíu prósent frá fyrra ári, auk þess sem Úrvalsvísitalan OMXI10 hækkaði um þriðjung.

„Viðskipti á árinu 2021 voru mun líflegri en ég hefði þorað að vona. Við höfðum gert ráð fyrir að það yrði aukning frá fyrra ári, en okkur hefði ekki órað fyrir að hún yrði jafn mikil og raun bar vitni. Það varð að jafnaði nærri 80% aukning í hlutabréfaviðskiptum innan hvers viðskiptadags og fór meðalvelta hvers dags úr 2,4 milljörðum króna í 4,3 milljarða," segir Magnús.

Þrátt fyrir að Magnús viðurkenni að síðasta ár hafi verið betra en hann hefði órað fyrir, kveðst hann þó hafa verið nokkuð bjartsýnn er árið 2021 rann í garð vegna ákveðinna breytinga sem höfðu átt sér og voru að eiga sér stað í umhverfi markaðarins. „Á sama tíma í fyrra fundum við fyrir auknum áhuga almennings á markaðnum, auk þess sem ráðist hafði verið í umbætur á hinum ýmsu þáttum í umhverfi Kauphallarinnar. Má þar sem dæmi nefna að árið 2020 var uppgjörsendinn bættur í kjölfar þess að Nasdaq verðbréfamiðstöð uppfærði kerfi sín og þjónustu til samræmis við alþjóðlegar kröfur fjárfesta um öryggi og skilvirkni. Þessar umbætur héldu svo áfram árið 2021 og svo var það einnig góð innspýting er síðustu leifar gjaldeyrishafta voru felldar niður síðasta vor."

Þá minnist Magnús einnig á tilfærslu íslenska hlutabréfamarkaðarins inn í vaxtamarkaðsvísitölu Morgan Stanley Capital International (MSCI) sem kom til framkvæmdar í maí 2021. Hann segir þetta hafa gefið íslenska markaðnum byr undir báða vængi enda þykir viðurkenning fyrir íslenskan hlutabréfamarkað að vera tekinn inn í vísitöluna, sem svo skapi tækifæri gagnvart erlendum fjárfestum.

Nánar er rætt við Magnús í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .