Gengi óverðtryggðra bréfa lækkaði lítillega í síðustu viku eða um 0,2% að meðaltali. Gengi verðtryggðra bréfa hækkaði að meðaltali um 0,1% í síðustu viku. Kosningaloforð stjórnmálamanna gefa ekki tilefni til mikillar bjartsýni um verðbólguþróun næstu ára. Þetta kemur fram í vikulegu skuldabréfayfirliti Capacent.

„Við getum öll mætt með bros á vör í vinnuna eftir helgina miðað við kosningaloforð flokkanna. Það virðist nær sama hver samsetning ríkisstjórnarinnar verður eftir kosningar, verðbólgan mun hækka ef uppfylla á kosningaloforð allra flokkanna. Möguleg samsetning kosningaloforða gæti t.d. verið, skattalækkanir, aukin útgjöld og vaxtalækkanir. Það lofaði enginn flokkur lægri verðbólgu!“ segir í yfirlitinu.

„Það er þó skýrt að sama hverjar niðurstöður kosninganna verða, að þá mun annað hvort verðbólgan aukast eða einhver stjórnmálaflokkur ekki ná að uppfylla kosningaloforð sín.“

Í skuldabréfayfirlitinu kemur einnig fram að Capacent hafi misspáð fyrir um verðbólgu í október. Þannig spáði Capacent 0,23% hækkun vísitölu neysluverðs en vísitalan hækkaði um 0,47%. Sérstaklega hækkaði matvælaverð hressilega í október, eða um 1,9%. Capacent dregur þá ályktun að innflutningsverðlag sé að hækka lítillega og að birgjar og kaupmenn séu að koma gengisveikingu krónunnar út í verðlag.