„Okkur langaði einfaldlega að einfalda allt ferlið þegar kemur að útivist,“ segir Kolbeinn Björnsson, forstjóri og meðstofnandi fyrirtækisins Mink Campers.  Fyrirtækið hóf nýlega starfsemi eftir langan undirbúning en markmið þess er að gera útivist þægilega og aðgengilega með aðstoð Minksins , lúxus vistarveru sem býr yfir öllum þeim helstu þægindum sem hægt er að hugsa sér þegar kemur að útilegum. Viðtökurnar við nýjunginni hafa verið gríðarlega góðar og nú er svo komið að fyrirtækið hyggst á frekari landvinninga á komandi misserum.

„Útivist getur verið bæði dýr og flókin og markmiðið hjá Mink Campers er að einfalda allt ferlið og gera það þægilegra. Í staðinn fyrir að fólk þurfir að kaupa tjöld eða hjólhýsi þá erum við að bjóða fólki að leigja allan búnaðinn, hugmyndin er í raun sú að þú þurfir ekkert meira en bara gönguskó og föt, við sjáum um allt annað,“ útskýrir Kolbeinn.

Hitakerfi, rúm, eldhús, panorama-þak úr gleri og nettengin

Vagninn sem fyrirtækið hannaði og kallað hefur verið minkurinn var heil tvö ár í þróun og þar virðist engu hafa verið til sparað. „Í vagninum er rúm fyrir tvo fullorðna auk koju fyrir eitt barn.

Innra rýmið er svo upphitað en við hönnuðum sérstakt hitakerfi sem hleypir lofti inn og út auk þess sem að það er stórt panorama-þak úr gleri í loftinu sem og á hliðunum sem gerir það að verkaum að þú getur legið inni í vagninum og horft upp í himininn eða á náttúruna. Það er sérstaklega hentugt ef fólk vill nýta sér vagninn á veturnar enda gefst þannig einstakt tækifæri til að horfa á norðurljósin úr vagninum í staðinn fyrir að að pukrast einhverstaðar í rútu eða útí í kuldanum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Borist hefur tilboð í eignir Háskólans á Bifröst.
  • Umfjöllun um nýjar reglur Fjármálaeftirlitsins um hámarksveðsetningarhlutfall fasteignalána.
  • Verðhjöðnun án húsnæðis hefur ekki verið meiri í rúmlega hálfa öld.
  • Heildarvísitala Kauphallarinnar hefur hækkað talsvert það sem af er ári.
  • Ítarlegt viðtal við Halldór Örn Jónsson, framkvæmdastjóra ZO-ON.
  • Rætt er við Íslending sem stendur í gullleit á Grænlandi.
  • Veitingastaðurinn Nostra opnar bráðlega á Laugarveginum.
  • Finnur Þór Erlingsson hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Corivo, er tekinn tali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um krónuna.
  • Óðinn fjallar um sjóðsöfnun í heilbrigðiskerfinu.