Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, þakkaði bankaráði Seðlabankans, seðlabankastjóra, aðstoðarseðlabankastjóra og öðrum starfsmönnum bankans fyrir vel unnin störf í ræðu sinni á ársfundi bankans nú í vor.

„Það hefur oft staðið styr um bankann og sitt sýnist hverjum um störf hans. Það sýnir fyrst og fremst hvað stjórnun peningastefnunnar er mikilvægt og vandasamt tæki. Erfitt er að draga aðra ályktun en að Seðlabankinn eigi sinn þátt í því hagvöxtur er hér með ágætum en þó ekki á yfirsnúningi, verðbólga er hófleg, erlend staða þjóðarbúsins afar góð og langvarandi afgangur hefur verið á viðskiptajöfnuði. Almennt er staða efnahagsmála afar góð þó hættur leynist víða,“ sagði Katrín.

Þá sagði hún einnig að núverandi staða á vinnumarkaði byggðist á langvarandi togstreitu og samskiptaleysi, sér í lagi á milli síðustu ríkisstjórna og launþegahreyfingarinnar. „Traust hefur skort. Stjórnmálamenn, atvinnurekendur og verkalýðsforystan verða að geta átt hreinskiptin samtöl en jafnframt að þekkja sín mörk,“ sagði Katrín.

Hún sagðist jafnframt telja að eðlilegt væri að styr stæði um skiptingu þjóðarkökunnar nú þegar kakan hefur stækkað og tók fram að hún leggði mikla áherslu á að launþegahreyfingin taki þátt í samtalinu við stjórnvöld.