Jeff Bezos, stofnandi og forstjóri Amazon mun enda árið sem ríkasti maður heims, þrátt fyrir að hafa gert níu milljarða dollara skilnaðarsamkomulag við eiginkonu sína á árinu. Bezos er metinn á 116 milljarða dollara á lista  Bloomberg yfir 500 ríkustu einstaklinga heims.

Samkvæmt frétt Bloomberg var árið sem nú er að líða óneitanlega gjöfult fyrir þá sem sitja á listanum en auður þeirra jókst um 1.200 milljarða dollara á árinu og nemur nú um 5.900 milljörðum dollara. Nam aukningin því um 25% á árinu. Þessu til viðbótar má nefna að auður 448 einstaklinga af 500 jókst á milli ára.

Á eftir Jeff Bezos kemur Bill Gates, stofnandi Microsoft, metinn á um 113 milljarða dollara en auður hans jókst um 23,1 milljarð dollara á árinu en hlutabréfaverð Microsoft hefur hækkað um 57% það sem af er ári. Í þriðja sætinu kemur svo Bernard Arnault, stærsti eigandi lúxusvörurisans LVMH. Hann er jafnframt hástökkvari ársins ef undan er skilin Julia Flesher Koch, eiginkona David Koch sem lést á árinu en auður hans upp á 62,1 milljarð dollara færðist yfir til hennar.