Dómsmálaráðuneytið (DMR) braut ekki gegn Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur þegar Sindri M. Stephensen var skipaður aðalmaður í kærunefnd útlendingamála. Þetta er niðurstaða kærunefndar jafnréttismála.

Fyrir ári síðan var aðalmanni í kærunefndinni, sem var karl og tilnefndur af Mannréttindaskrifstofu Íslands, veitt lausn frá starfinu. Fór dómsmálaráðuneytið þess á leit við skrifstofuna að hún myndi tilnefna aðalmann í nefndina í hans stað. Varð það úr að fyrrnefnd Arndís Anna var tilnefnd til starfans en sú er nýr þingmaður Pírata, sem stendur hið minnsta, að því gefnu að ekki komi til uppkosningar, samkvæmt niðurstöðum kosninganna.

Í bréfi Mannréttindaskrifstofunnar til ráðuneytisins var tekið fram að aðeins væri einn aðili tilnefndur þar sem ekki reyndist unnt að finna karl til starfans með viðlíka reynslu og Arndís. DMR svaraði erindinu og bað um að bæði karl og kona yrðu tilnefnd. Yrði fallist á tilnefninguna yrðu fimm nefndarmenn konur en tveir karlar og því hallaði á karlana. Skrifstofan þráaðist við en tilnefndi á endanum tvö til starfans. Var karlinn, fyrrnefndur Sindri, skipaður í nefndina.

Taldi horft framhjá sérþekkingu sinni

Arndís brást við þessu með því að kæra ráðuneytið til kærunefndar jafnréttismála þar sem hún taldi brotið á rétti sínum. DMR hefði með skipuninni neitað að taka tilnefningu hennar til greina á grundvelli kyns og alfarið litið fram hjá hæfni hennar og sérþekkingar.

Tók þingmaðurinn meðal annars fram í kærunni að málinu lægi fyrir skýring Mannréttindaskrifstofu til DMR sem tilgreinir þær hlutlægu ástæður sem skrifstofan mat mikilvægari en kyn umsækjanda við tilnefningu í nefndina, þ.e. sérþekkingu kæranda, menntun hennar og reynslu.

„Í stað þess að sannreyna þessar fullyrðingar Mannréttindaskrifstofu með því að framkvæma hæfnismat á umsækjendunum hafi því verið borið við að ekki væri nauðsynlegt að umræddur lögfræðingur, sem yrði aðalmaður í kærunefndinni með endanlegt úrskurðarvald á stjórnsýslustigi um gríðarlega hagsmuni einstaklinga í viðkvæmri stöðu, hefði neina sérþekkingu til að bera,“ segir í kærunni.

Þá væri ljóst að forsendur DMR fyrir höfnun stæðust ekki skoðun í ljósi þess að í byrjun þessa árs var skipað í stöðu varaformanns nefndarinnar. Þar hafi karl verið skipaður til starfans, í stað konu sem hafði gegnt starfinu áður, og kynjahlutföllin eftir það verið fjórir karlar og tvær konur. Úrvinnsla þeirra umsókna var til meðferðar þegar verið var að meðhöndla mál Arndísar.

Nóg framboð af lögfræðikörlum

Í málsvörn DMR kom fram að ráðuneytið teldi það ekki standast skoðun að skrifstofunni hefði ekki verið unnt að tilnefna bæði karl og konu til starfans en ekki úr þröngum hópi að velja. Lögum samkvæmt er aðeins skylt að nefndarmenn, aðrir en formaður og varaformaður, hafi lokið embættis- eða meistaraprófi í lögfræði. Því hefði fjöldi komið til greina. Rétt hafi verið að skipa karlinn til starfans á grundvelli kynjasjónarmiða.

Í úrskurði nefndarinnar segir að samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem voru í gildi þegar skipað var í stöðuna, skuli þess gætt að hlutfall kynjanna skuli sem jafnast við skipanir í nefndir, ráð og stjórnir á vegum hins opinbera og eigi minna en 40% þegar nefndarmenn eru fleiri en þrír. Aðeins sé heimilt að víkja frá því þegar ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu.

„Í ljósi framangreinds verður að telja að Mannréttindaskrifstofu Íslands hafi borið að tilnefna bæði karl og konu, […], til setu í kærunefnd útlendingamála. Ekki verður séð að hlutlægar ástæður, […], hafi getað leitt til þess að Mannréttindaskrifstofu væri ómögulegt að tilnefna bæði kynin. Rétt er að árétta að eina hæfisskilyrðið sem gert er til þeirra nefndarmanna sem Mannréttindaskrifstofa tilnefnir er embættis- eða meistarapróf í lögfræði. Verður því ekki talið að Mannréttindaskrifstofa hafi getað vikið frá þeirri skyldu að tilnefna bæði karl og konu með vísan til skorts á tiltekinni sérfræðiþekkingu hjá lögfræðimenntuðum körlum,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar.