Borgarfulltrúinn og forseti borgarstjórnar Pawel Bartoszek, sem er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, starfaði sem alþingismaður áður en hann varð borgarfulltrúi. Hann segir að munurinn á þessum tveimur störfum sé meiri en margan grunar.

„Aðalmunurinn felst í því að þegar þú ert á þingi þá hafa fjölmiðlar mikinn áhuga á störfum þínum en almenningur mun minni áhuga. Því er öfugt farið sem borgarfulltrúi, almenningur fylgist vel með störfum þínum en fjölmiðlar sýna minni áhuga. Borgarfulltrúar fá mikið af beinum fyrirspurnum um eitthvað sem varðar persónulega hagi fólks, t.d. varðandi lýsingu á tilteknum gönguleiðum, umferðarmál á tiltekinni götu o.s.frv. Þannig fyrirspurnir fá þingmenn nánast aldrei. Þá er mun algengara að þingmenn séu fengnir inn sem viðmælendur í þjóðfélagsumræðuþætti líkt og Sprengisand og Silfrið. Einnig er meiri krafa á að þingmenn séu álitsgjafar um nánast allt. Það er ætlast til þess að þingmenn séu búnir að mynda sér skoðun á nánast öllu milli himins og jarðar, á meðan sveitarstjórnarfólk fær oftar að komast upp með það að hafa bara skoðun á því sem varðar sveitarfélag þess.

Það er einnig talsverður munur á vinnudegi þingmanns og borgarfulltrúa. Starf borgarfulltrúans er fjölskylduvænna heldur en alþingismannsins. Ég var í eitt ár á Alþingi og þegar ég kom þaðan út þekktu börnin mín mig varla! Ég var oft að fara í vinnuna um klukkan átta á morgnana og ekki að koma heim fyrr en mjög seint á kvöldin. Þingmenn vinna mjög langa vinnudaga en á hinn bóginn fá þingmenn t.d. lengra sumarfrí en sveitarstjórnarfólk. Það koma því alveg kaflar þar sem er hægt að hafa meiri sveigjanleika en þess á milli er starfið því miður mjög ófjölskylduvænt.

Við sem samfélag ættum að huga að því hvort það sé ekki eitthvað sem við myndum vilja breyta. Er það sniðugt að þingmenn séu að kjósa um hin ýmsu málefni eftir miðnætti? Ég tel að það ætti að leita leiða til að hafa þessar kosningar á dagvinnutíma, þjappa betur umræðum og gera þær skilvirkari. Þannig myndi nást fram fjölskylduvænna starfsumhverfi. Við hljótum að vilja búa til starfsumhverfi sem hentar betur báðum kynjum, fólki á ólíkum aldri og einstæðum foreldrum. Það er að mínu mati alveg í lagi að einstaka þingfundur dragist fram á kvöld, en það á ekki að vera reglan."

Árið 2016 varst þú kosinn inn á Alþingi og mátti þá reikna með að þú myndir sitja þar út kjörtímabilið í fjögur ár. Voru það vonbrigði að detta út af þingi aðeins ári síðar?

„Ég segi alltaf að þakklætið fyrir það að hafa fengið að sitja á þingi og fá þetta hlutverk hafi borið vonbrigðin ofurliði. Mér hefði þótt gaman að vera þingmaður lengur en ég leit svo á að ég ætti ekki skilið að vera hundfúll yfir því að fá ekki lengur að starfa sem þingmaður. Fyrst að Viðreisn fékk ekki nógu mörg atkvæði í Reykjavíkurkjördæmi suður til að ég yrði áfram fulltrúi kjósenda þar þá varð maður að virða hug kjósenda og sætta sig við það."

Gætir þú hugsað þér að snúa aftur á Alþingi?

„Ég útiloka það alls ekki að snúa aftur á þingið einn daginn. Mér leið mjög vel á Alþingi en mér líður einnig mjög vel í því starfi sem ég gegni í dag. Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um framtíðina en mér líður vel í pólitík og get vel hugsað mér að starfa áfram sem borgarfulltrúi eða að gera tilraun til að komast aftur inn á þing." Hyggst þú bjóða þig fram í næstu alþingiskosningum? „Ég hef ekki tekið ákvörðun um það en um leið og ég hef tekið þá ákvörðun mun ég ekki hika við að greina frá henni. Mér þykir nauðsynlegt að afla mér reynslu og þekkingar og ég sé alveg fram á það að þurfa meira en tveggja til þriggja ára reynslu til að verða fullburða sveitarstjórnarmaður. Á þessari stundu þykir mér því líklegt að ég einbeiti mér að sveitarstjórnarstiginu."

Nánar er rætt við Pawel í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .