Gunnar Már Jakobsson vonast til þess að geta miðlað reynslu sinni og tónsmíðum með nýstofnuðu fyrirtæki sínu, en markmiðið er m.a. að koma tónsmíðum í kvikmyndir, sjónvarp og auglýsingar.

„Ég hef gengið lengi með þann draum að gera tónlist að aðalatvinnu minni, og er stofnun þessa fyrirtækis tilraun til að koma mér inn í að selja notkun á tónlist sem ég og aðrir erum að semja. Ég sem mikið í alls konar stílum og það er markaður þarna úti til að nota þegar útgefið efni í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, auglýsingum og þess háttar,“ segir Gunnar Már.

„Ég hef starfað sem tónlistarmaður í tíu ár, svo maður hefur lært um regluverkið sem á við um þennan tónlistarbransa og svo vill til að ég er lögfræðimenntaður líka.“ Gunnar Már segir ekki sömu hefð fyrir sértækum útgáfuforlögum af því tagi sem hann vonast til þess að fyrirtækið muni vaxa í, hér á landi miðað við það sem tíðkast úti í heimi.

„Ef við tökum dæmi frá Bandaríkjunum og Bretlandi, þá er það nánast óþekkt að hljómsveitir sem eru tilbúnar með efni séu ekki með fyrirtæki sem eru að vinna að því fyrir þeirra hönd að koma efninu að í alls konar miðlum,“ segir Gunnar Már og bendir á að mjög algengt sé að samið sé við fyrirtæki sem sinni því.

„Slík fyrirtæki opna tækifæri fyrir tónlistarmenn sem þeir myndu annars ekki geta fengið sjálfir. Ég hef heyrt um marga úr bransanum sem hafa komið hingað til lands á ráðstefnur og rekið upp stór augu þegar þeir hafa heyrt að hér sé lítil starfsemi í kringum þetta.“

Gunnar Már segir ýmsa hafa haft svipaðar hugmyndir áður í íslenska tónlistarbransanum en lent á veggjum í kerfinu. „Þessu fylgir rosalegt skriffinnskuflóð sem er yfirþyrmandi fyrir flesta, en sem lögfræðingur er ég ágætlega þjálfaður í að lesa leiðinlega texta,“ segir Gunnar Már.

Ég hef verið lengi í þessum bransa og ferðast út um allan heim með Árstíðum. Þó að fyrirtækið sé hljómsveitinni óviðkomandi höfum við í gegnum árin gert ótalmarga samninga, meðal annars við fyrirtæki með svipuð markmið og mitt, svo ásamt með lögfræðinni ætli maður sé ekki kominn með reynslu sem hægt er að miðla til annarra.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .